Fara í efni
Íþróttir

Tvö KA-mörk í lokin og langþráður sigur

Jakob Snær Árnason fagnar ásamt Elfari Árni Aðalsteinssyni, sem farinn var velli, eftir fjórða og síðasta mark KA í dag. Bjarni Aðalsteinsson til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann 4:2 sigur á Fram í 9. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, í leik sem fram fór á Greifavelli, sunnan við KA-heimilið í dag. Þetta var fyrsti sigur KA í deildinni síðan liðið vann HK í byrjun maí.

Mikill vindur var á vellinum í fyrri hálfleik og hafði hann áhrif á spilamennsku beggja liða. KA-menn voru þó sterkari og fengu betri færi.  Þrátt fyrir það kom Guðmundur Magnússon Fram yfir á 33. mínútu leiksins. Fred Saraiva átti þá skot í stöngina og Guðmundur var mættur að fylgja á eftir.

Aðeins nokkrum mínútum seinna jafnaði Hallgrímur Mar Steingrímsson metin úr vítaspyrnu. Hallgrímur fór sjálfur á punktinn eftir að Óskar Jónsson felldi hann. Staðan var 1:1 í hálfleik.

Bjarni Aðalsteinsson kom KA í 2:1 með skalla eftir hornspyrnu á 51. mínútu en sú forysta átti ekki eftir að lifa lengi. Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Fred Saraiva úr vítaspyrnu eftir að Már Ægisson var felldur að mati Einars Inga dómara. Staðan því orðin jöfn á ný.

Eftir þetta róaðist leikurinn töluvert og Framarar voru líklegri aðilinn til að bæta við. En tvö mörk í lokin frá Jakobi Snæ Árnasyni, sem er kominn til baka eftir meiðsli, sáu til þess að KA-menn fóru með öll þrjú stigin heim. Á 85. mínútu gerði Jakob virkilega vel í að stýra skoti frá Þorra Þórissyni á markið og fram hjá Ólafi Íshólm. Eftir þetta reyndu Framarar að jafna og við það opnaðist vörn þeirra. Jakob skoraði annað mark sitt á 93. mínútu eftir að hann og Harley Willard höfðu komist í gegn. 

Eftir leikinn eru KA-menn í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig.

Nánar verður fjallað um leikinn á eftir