Fara í efni
Íþróttir

Tveir úrslitaleikir á tveimur dögum – í tveimur greinum!

Sigurður Þrastarson dómari á Akureyrarflugvelli í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Sigurður Þrastarson dómari á Akureyrarflugvelli í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sigurður Hjörtur Þrastarson hafði í nógu að snúast í lok nýliðinnar viku. Akureyringurinn hefur verið iðinn við að dæma leiki bæði í handbolta og fótbolta síðustu misseri, og fékk sjaldgæft tækifæri að þessu sinni.

  • Á fimmtudagskvöldið dæmdi Sigurður, ásamt Svavari Ólafi Péturssyni, undanúrslitaleik Vals og Fram í bikarkeppni kvenna í handbolta í Schenkerhöll Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði.
  • Á föstudagskvöldið dæmdi Sigurður úrslitaleik Breiðabliks og Þróttar í bikarkeppni kvenna í fótbolta á Laugardalsvelli.
  • Eftir hádegi á laugardag dæmdi Sigurður svo, aftur ásamt Svavari Ólafi, úrslitaleik KA/Þórs og Fram í bikarkeppni kvenna í handbolta í Schenkerhöll Hauka.

Sigurður segir það engum vandkvæðum bundið að dæma leiki í tveimur greinum með svo skömmu millibili, hvað þá tvo úrslitaleiki á jafn mörgum dögum, í tveimur greinum. „Nei, það var ekkert mál, en mjög skemmtilegt. Ég lít á það sem mikinn heiður að hafa fengið að dæma báða úrslitaleikina,“ sagði Sigurður við Akureyri.net á Akureyrarflugvelli í gær, þegar hann kom norður, með sömu vél og bikarmeistararnir.