Fara í efni
Íþróttir

Tryggvi í undanúrslit í Evrópu - Addi í stuði

Arnór Þór Gunnarsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Tryggvi Snær Hlinason og samherjar í spænska liðinu Zaragoza eru komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar í körfubolta, næst sterkustu Evrópukeppninnar. Úrslitakeppni átta bestu liðanna fer fram í rússnesku borginni Nizhny Novgorod; átta liða úrslitin hófust í dag, undanúrslitin verða á föstudag og úrslitaleikurinn og viðureignin um þriðja sætið fara fram á sunnudaginn.

Zaragoza sigraði heimamenn í Nizhny Novgorod í dag 86:78. Tryggvi lék í rúmar 10 mínútur, skoraði ekki en tók þrjú fráköst. Zaragoza mætir annað hvort Era Nymburk frá Tékklandi eða Pinar Karsiyaka frá Tyrklandi í undanúrslitunum á föstudaginn, en leikur þeirra stendur nú yfir.

Arnór Þór Gunnarsson gerði 7 mörk, þar af fimm úr vítum, þegar Bergischer sigraði TuSEM Essen, 32:22, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag. Þetta var fyrsti leikur Arnórs og félaga í Bergishcer í tvær og hálfa viku; kórónuveirusmit kom upp í leikmannahópnum um daginn og liðið losnaði ekki úr sóttkví fyrr en í gær, en það kom ekki að sök.  Bergischer er í sjöunda sæti deildarinnar, á leik til góða á Wetzler sem er næst fyrir ofan, og stendur býsna vel í baráttu um sæti í Evrópukeppni.