Fara í efni
Íþróttir

Toppslagur KA og Víkings á Dalvík

Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar úr víti gegn Leikni, í fyrsta heimaleik KA-manna á Dalvík í síðustu viku. Hann hefur gert fimm mörk það sem af er, fleiri en nokkur annar í deildinni. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA og Víkingur mætast í fimmtu umferð efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildarinnar, í dag klukkan 18.00. Leikurinn fer fram á Dalvík þar sem heimavöllur KA, Akureyrarvöllur (Greifavöllur) er ekki tilbúinn. 

Liðin eru á toppi deildarinnar eftir fjórar umferðir, ásamt Val og FH, með 10 stig. KA-menn hafa verið iðnir við kolann; gerðu reyndar markalaust jafntefli við HK í fyrstu umferð en hafa síðan unnið KR 3:1 á útivelli, Leikni 3:0 á heimavelli og Keflavík 4:1 suður með sjó. 10 mörk og 10 stig er góð uppskera. Því verður spennandi að fylgjast með viðureign kvöldsins gegn Víkingum, sem buðu upp á stórskemmtilegan leik í síðustu umferð, þegar þeir unnu Breiðablik 3:0. Þar áður unnu þeir Keflavík 1:0, gerðu 1:1 jafntefli við ÍA og sigruðu Stjörnuna 3:2.