Fara í efni
Íþróttir

Þrjú öflug bætast við þjálfarateymið

Dóra Sif Sigtryggsdóttir stjórnarmaður hjá Þór/KA, og Elma Eysteinsdóttir undirrita samninginn.
Dóra Sif Sigtryggsdóttir stjórnarmaður hjá Þór/KA, og Elma Eysteinsdóttir undirrita samninginn.

Á dögunum voru staðfestir samningar við þrjá öfluga liðsmenn sem bættust við þjálfarateymið hjá knattspyrnuliði Þórs/KA. Þremenningarnir hófu störf fyrir nokkru en nú er ráðningin formleg.

  • Elma Eysteinsdóttir hefur starfað sem styrktarþjálfari með liðunum frá því undirbúningstímabilið hófst í vetur og hefur nú undirritað samning við félagið út árið 2022. Elma er þekkt sem styrktar- og einkaþjálfari til fjölda ára og sem afrekskona og Íslandsmeistari í blaki með Þrótti frá Neskaupstað og KA.
  • Jónas L. Sigursteinsson var nýlega ráðinn þjálfari 2. flokks Þórs/KA/Hamranna. Þremur liðum verður teflt fram á Íslandsmótinu í sumar, Þór/KA og Hömrunum í meistaraflokki og sameiginlegu liði undir merkjum Þórs/KA/Hamranna í 2. flokki. Jónas er Akureyringur, en hefur búið og starfað sem kennari í Bolungarvík og þjálfari hjá meistaraflokki og yngri flokkum hjá BÍ/Bolungarvík og Vestra í mörg ár. Jónas var öflugur þjálfari hér í bæ áður en hann flutti vestur; var til dæmis hvort tveggja seinasti þjálfari sameiginlegs kvennaliðs Akureyringa undir merkjum ÍBA og fyrsti þjálfari hjá Þór/KA þegar liðið hóf keppni undir því nafni 1999.
  • Siguróli Kristjánsson, Moli, starfaði sem aðstoðarþjálfari hjá Þór/KA frá 2008 til 2016 og vann á því tímabili með fjórum þjálfurum. Hann hætti um leið og Jóhann Kristinn Gunnarsson lét af starfi sem þjálfari liðsins, í lok tímabilsins 2016. Siguróli hefur þó aldrei verið langt undan og kom inn í þjálfarateymið síðastliðið sumar sem eins konar tæknilegur og móralskur ráðgjafi. Hann mun halda áfram í svipuðu hlutverki og hefur nú undirritað samning þess efnis út þetta ár.

Í heild mun þjálfarateymið hjá Þór/KA og Hömrunum því samanstanda af sex manns á komandi tímabili. Andri Hjörvar Albertsson er aðalþjálfari Þórs/KA. Honum til aðstoðar eru Bojana Kristín Besic, sem jafnframt er aðalþjálfari Hamranna, og Perry Mclachlan, sem jafnframt sér um þjálfun markvarða. 

Jónas L. Sigursteinsson og Dóra Sif Sigtryggsdóttir.

Siguróli Kristjánsson og Nói Björnsson, formaður kvennaráðs í fjöldamörg ár.