Fara í efni
Íþróttir

Þriðji sigurinn í röð – SA-konur ósigraðar

Magdalena Sulova gerði tvö af mörkum SA gegn Fjölni í dag. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

SA vann öruggan sigur á Fjölni í þriðja leik sínum í Toppdeild kvenna í íshokkí þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í dag. Lokatölur urðu 6-1 og komu öll mörkin nema eitt í annarri lotunni. Lið SA hefur byrjað mótið af krafti og unnið þrjá fyrstu leiki sína. Eyrún Garðarsdóttir og Magdalena Sulova skoruðu tvö mörk hvor og þær Anna Sonja Ágústsdóttir og Silvía Rán Björgvinsdóttir eitt hvor.

Magdalena Sulova náði forystunni fyrir SA þegar 11 sekúndur voru eftir af fyrstu lotunni. Anna Sonja Ágústsdóttir kom SA í 2-0 snemma í annari lotu, en um miðja aðra lotuna hófst markaregn þar sem SA skoraði fjögur mörk á rúmlega sex mínútna kafla. Magdalena skoraði sitt annað mark, Eyrún Garðarsdóttir bætti við fjórða marki SA aðeins 12 sekúndum eftir að leikurinn hófst að nýju eftir þriðja markið. Silvía Rán Björgvinsdóttir kom SA í 5-0 og Eyrún skoraði svo aftur og kom SA í 6-0 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af annarri lotu. Eva Hlynsdóttir minnkaði muninn í 6-1 áður en annarri lotu lauk, samtals komin sex mörk á rúmum 16 mínútum.

Hvorugu liðinu tókst svo að bæta við marki í þriðju lotunni og sigur SA aldrei í hættu.

Hokkíkonur SA tileinkuðu leikinn Bleiku slaufunni, átaki Krabbameinsfélagsins, eins og sjá má á myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum, og spiluðu allar með bleikar reimar á skautunum ásamt því að safna fé til styrkar átakinu með hefðbundnum leik áhorfenda í leikhléi, þar sem keppst er við að kasta pökkum úr stúkunni og hitta sem næst miðjupunktinum.

SA
Mörk/stoðsendingar: Eyrún Garðarsdóttir 2/1, Magdalena Sulova 2/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/3, Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0, Eva María Karvelsdóttir 0/2, Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir 0/1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 0/1, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1, Sveindís Marý Sveinsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 17 (94,4%).
Refsimínútur: 14.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Eva Hlynsdóttir 1/0, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 0/1, Sofia Sara Bjarnadóttir 0/1.
Varin skot: 26 (82,3%).
Refsimínútur: 6.

Leikskýrslan

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins, að venju, og hægt að horfa á upptöku af honum - sjá hér. Til gamans og hægðarauka er líka hægt að fara beint inn á hvert mark fyrir hér að neðan.

1-0 - Magdalena Sulova (19:49). Stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Eva María Karvelsdóttir. 

SA vann pökkinn í eigin varnarsvæði, Silvía Rán skautar með hann upp vinstra megin og sendir fyrir markið þar sem Magdalena er á auðum sjó og skorar örugglega.

2-0 - Anna Sonja Ágústsdóttir (22:15). Stoðsending: Eyrún Garðarsdóttir.

Fjölniskonur voru í sókn og áttu misheppnaða sendingu til baka. Anna Sonja elti varnarmann Fjölnis og vann pökkinn, Eyrún Garðarsdóttir tók við honum og skautaði upp hægra megin, sendi út þar sem Anna Sonja var mætt og skoraði af stuttu færi.

3-0 Magdalena Sulova (30:39). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Eva María Karvelsdóttir.

Leikmenn SA pressuðu gestina inni í þeirra varnarsvæði sem endaði með því að Magdalena skoraði af stuttu færi eftir nokkra þvögu framan við markið.

4-0 - Eyrún Garðarsdóttir (30:51). Stoðsending: Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir.

Það liðu ekki nema 12 sekúndur frá því að leikur hófst að nýju með dómarakasti eftir þriðja mark SA þegar það fjórða leit dagsins ljós. Eyrún Garðarsdóttir vann þá pökkinn með harðfylgi af varnarmanni Fjölnis, skautaði með hann að markinu og var ekkert að flækja málið, skoraði af stuttu færi.

5-0 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (34:12). Stoðsending: Ragnheiður Ragnarsdóttir.

Ragnheiður Ragnarsdóttir fékk sendingu fram, en var felld þegar hún reyndi að komast framhjá varnarmanni. Þá var svokallaður biðdómur, dómarinn gefur merki um dóm, en þar sem Silvía Rán náði pökknum hélt leikurinn áfram. Silvía Rán sveigði framhjá varnarmönnum og skoraði. 

6-0 - Eyrún Garðarsdóttir (36:45). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir.

Einni fleiri á svellinu eftir að leikmaður Fjölnis fékk refsingu spiluðu SA-konur pökknum á milli sín af yfirvegun og leituðu eftir besta færinu. Það kom fljótlega þegar Eyrún fékk pökkinn ein fyrir miðju marki og kom honum í netið.

6-1 - Eva Hlynsdóttir (38:33). Stoðsending: Sofia Sara Bjarnadóttir, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir.

Dómarakast í varnarsvæði SA, Fjölnir vinnur pökkinn og Eva lætur vaða fyrir utan vinstra megin. Liðsfélagi hennar skyggði á útsýni markvarðarins og pökkurinn sigldi alla leið í netið.