Fara í efni
Íþróttir

Þriðji leikur SA og SR sýndur á Akureyri.net

Einar Grant, Gunnar Arason og samherjar þeirra í SA Víkingum taka á móti liði Skautafélags Reykjavíkur í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lið Skautafélags Akureyrar, SA Víkingar, tekur á móti Skautafélagi Reykjavíkur í þriðja úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla í dag klukkan 16.45. Leikurinn verður, eins og annar leikur liðanna í Reykjavík á þriðjudaginn, í beinni útsendingu á vefjum SA og Íshokkísambandsins og hægt verður að fylgjast með streyminu hér á Akureyri.net. Útsending hefst skömmu fyrir leik.

Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari þannig að úrslit gætu ráðist í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík á þriðjudagskvöldið kemur. SA vann fyrsta leikinn á Akureyri en SR jafnaði metin með sigri á heimavelli í vikunni. Liðið sem sigrar í kvöld fær því möguleika á að hampa Íslandsbikarnum eftir fjórða leikinn, en bikarinn fer í síðasta lagi á loft í Skautahöllinni á Akureyri fimmtudagskvöldið 31. mars.

Fjölmennt var á áhorfendapöllunum á fyrsta úrslitaleiknum og ástæða til að hvetja Akureyringa til að flykkjast í Skautahöllina í dag og styðja sína menn. Búast má við hörkuleika sem endranær.