Fara í efni
Íþróttir

Grátlegt þriðja tap KA-manna á heimavelli

Táknræn mynd fyrir leikinn! KA-menn voru eðlilega afar vonsviknir og trúðu því varla að þeir hefðu t…
Táknræn mynd fyrir leikinn! KA-menn voru eðlilega afar vonsviknir og trúðu því varla að þeir hefðu tapað. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði í leiknum en þarna tókst honum ekki að skora í ágætu færi. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Enn er knattspyrnulið KA í mótbyr á heimavelli sínum á Dalvík í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. KR-ingar komu í heimsókn í kvöld og KA-menn urðu að gera sér tap að góðu, 2:1, þrátt fyrir að vera einum fleiri í um það bil 70 mínútur. Þetta var fjórði heimaleikur KA í sumar, þeir unnu Leikni í þeim fyrsta en hafa nú tapað fyrir Víkingi, Val og KR.

Kristján Flóki Finnbogason, framherji KR, fékk tvö gul spjöld á fáeinum sekúndum snemma leiks - fyrst fyrir mótæli þegar hann taldi brotið á sér inni í teig og vildi fá víti. Ívar Orri Kristjánsson, dómari, flautaði ekki þá en lyfti hins vegar gula spjaldinu þegar Kristján hélt áfram að mótmæla. Spjaldið fór svo aftur á loft nokkrum andartökum síðar, og þar með líka það rauða, þegar Kristján braut illa á Sveini Margeiri beint fyrir framan nefið á Ívari Orra. Þetta var eftir rúmar 20 mínútur.

Fyrri hálfleikurinn var mjög fjörugur. Fram að rauða spjaldinu sóttu liðin á víxl af krafti og sá taktur hélst raunar fram að leikhléi. En það var ekki fyrr en á lokakafla hálfleiksins sem leikmenn höfðu erindi sem erfiði.

  • Kjartan Henry Finnbogason kom KR í 1:0 á 40. mínútu eftir góðan undirbúning Kristins Jónssonar, vinstri bakvarðar; framherjinn þrautreyndi fékk sendingu inn í teig og afgreiddi boltann viðstöðulaust í fjærhornið.
  • Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði á 42. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf Hallgríms Mar Steingrímssonar frá vinstri.
  • Það var svo á allra síðustu sekúndum fyrri hálfleiks sem KR fékk víti eftir slæm mistök Þorra Mar, Kristinn Jónsson komst inn í slæma sendingu hans þvert yfir vítateiginn og í baráttu um boltann braut Jonathan Hendrickx á KR-ingnum. Ívar Orri virtist bara eiga einn kost og Pálmi Rafn Pálmason skoraði af öryggi úr vítinu.

KA-menn voru nokkrum sinnum nálægt því að skora í seinni hálfleik, þeir voru miklu meira með boltann og sóttu linnulítið, enda má segja að KR-ingarnir hafi einfaldlega lagst í vörn. Strax í upphafi hálfleiksins komst Ásgeir Sigurgeirsson í gott færi en Beitir, markvörður KR, varði frá honum eins og frá öðrum KA-mönnum nokkrum sinni í hálfleiknum. Hallgrímur Mar komst næst því að skora þegar hann skaut í stöng seint í leiknum.

Með sigrinum komst KR upp fyrir KA á stigatöflunni, hefur 18 stig en KA 17, en KA-menn hafa lokið 10 leikjum en KR-ingar 11.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

KA-menn fagna marki Elfars Árna á Dalvík í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Útaf! Ívar Orri dómari sýnir Kristján Flóka rauða spjaldið.Kristjáni virðist skemmt en félögum hans síður. 

Gamli og nýi tíminn! Kjartan Henry Finnbogason og Brynjar Ingi Bjarnason í kvöld. Þetta var síðasti leikur Brynjars með KA áður en hann fer til Lecce á Ítalíu í vikunni, en Kjartan er nýkominn heim til KR eftir mörg ár sem atvinnumaður erlendis.

Pálmi Rafn Pálmason, KR-ingur og KA-maðurinn Haukur Heiðar Hauksson, berjast um boltann í kvöld.