Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar unnu Fjölni og eru einir á toppnum

Þórsgleði í Höllinni í kvöld eftir sigur á Fjölni í toppslag Grill 66 deildarinnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu lið Fjölnis með eins marks mun á heimavelli í kvöld, 27:26, í toppslag næstu efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta, Grill 66 deildarinnar. Þórsarar eru þar með einir á toppnum eins og er. 

Leikurinn í Höllinni var fjörugur og spennandi. Þórsarar höfðu frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn, náðu mest fjögurra marka forystu en tveimur mörkum munaði í hálfleik, 13:11. Seinni hálfleikurinn var í jafnvægi, heimamenn þó áfram skrefi á undan og sigurinn var sanngjarn þótt aðeins munaði einu marki í lokin. Brynjar Hólm Grétarsson kom Þór í 27:25 þegar tæp mínúta var eftir, Fjölnir minnkaði muninn aftur niður í eitt mark þegar 20 sek. voru eftir og Þórsarar héldu boltanum það sem eftir lifði.

Fjör í Höllinni í kvöld! Þórsararnir Viðar Ernir Reimarsson, Kristján Páll Steinsson markvörður, Friðrik Svavarsson og Arnór Þorri Þorsteinsson, og Fjölnismaðurinn Dagur Logi Sigurðsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 5, Brynjar Hólm Grétarsson 5, Viðar Ernir Reimarsson 5, Sigurður Ringsted Sigurðsson 4, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Þormar Sigurðsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 16 (38,1%).

Með sigrinum eru Þórsarar komnir með 11 stig, einu meira en ungmennalið Fram, sem á einn leik til góða; mætir ungmennaliði Vals á fimmtudagskvöld. Þórsarar sækja Framara svo heim um næstu helgi.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni