Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar rökuðu að sér viðurkenningum

Aron Birkir Stefánsson, fyrirliði Þórs, með deildarmeistarabikarinn eftir sigurinn á Þrótti í Laugardalnum á dögunum. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar áttu flesta leikmenn í úrvalsliði Lengjudeildar karla í knattspyrnu árið 2025, besta leikmanninn, efnilegasta leikmanninn og besta þjálfarann, samkvæmt vali knattspyrnusíðunnar fotbolti.net. Eins og kunnugt er urðu Þórsarar sigurvegarar Lengjudeildarinnar og komust beint upp í efstu deild og niðurstöður þessa vals kóróna góða frammistöðu liðsins í sumar.

Efnilegastur og bestur! Einar Freyr Halldórsson, til vinstri, og Sigfús Fannar Gunnarsson. Myndir: Ármann Hinrik

Það voru sérfræðingar fotbolti.net og fréttaritarar síðunnar sem völdu úrvalsliðið. Aron Birkir Stefánsson er í liðinu sem besti markvörður deildarinnar og Yann Emmanuel Affi er einn af varnarmönnum úrvalsliðsins. Þá eru þeir Ibrahima Balde og Einar Freyr Halldórsson í hópi miðjumanna úrvalsliðsins og Sigfús Fannar Gunnarsson, markakóngur deildarinnar, í framlínunni. Fimm af ellefu í liðinu eru sem sagt Þórsarar!

Sigfús Fannar var auk þess valinn leikmaður ársins í Lengjudeildinni og Einar Freyr Halldórsson efnilegastur. Um Sigfús Fannar segir valnefndin: „Þessi stóri og stæðilegi sóknarmaður sprakk svo sannarlega út í sumar og var illviðráðanlegur fyrir varnarmenn Lengjudeildarinnar.“

Í liði ársins; Ibrahima Balde, Aron Birkir Stefánsson og Yann Emmanuel Affi. Myndir: Ármann Hinrik og Skapti Hallgrímsson

Einar Freyr er kornungur ennþá, rétt nýorðinn 17 ára, en vakti geysilega athygli í sumar. Um hann segir nefndin: „Miðjumaður með frábæra tæknilega getu og mikið öryggi og þroska miðað við aldur. Hann var einn allra mikilvægasti leikmaður Þórs í Lengjudeildinni í sumar.“

Ekki nóg með það, því Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari liðsins var valinn þjálfari ársins í Lengjudeildinni. Hann sýndi svo sannarlega styrk sinn með því að leiða Þórsliðið til sigurs í deildinni í ár, eftir að hafa skilað því í 10. sæti sumarið áður. 

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig Þórsliðinu vegnar í efstu deildinni á næsta ári en þar hefur liðið ekki átt sæti í allmörg ár.

Leikmenn Þórs tollera þjálfarann, Sigurð Heiðar Höskuldsson, eftir að liðið tryggði sér sigur í Lengjudeildinni með því að vinna Þrótt í lokaumferðinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Frétt fótbolta.net