Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar niðurlægðir á Sauðárkróki

Dedrick Deon Basile var langskársti leikmaður Þórs í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
Dedrick Deon Basile var langskársti leikmaður Þórs í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Körfuboltalið Þórs var á miklum skriði og hafði unnið fimm leiki í röð þegar íþróttasamfélaginu var skellt í lás fyrir mánuði. Mikil spenna var því fyrir að sjá liðið á nýjan leik, gegn Tindastóli á Sauðárkróki í kvöld í Domino's deildinni. Sú spenna stóð þó ekki lengi; í stuttu máli sagt kjöldrógu heimamenn Þórsara. Niðurlægðu þá. Lokastaðan var 117:65; nei, þetta er ekki prentvilla – Tindastóll sigraði í leiknum með 52 stiga mun.

 • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 21:16 – 34:16 (55:32) – 37:18 – 25:15 (117:65)

Óþarfi er að eyða mörgum orðum í umfjöllun um leikinn að sinni. Fyrsti leikhluti var jafn, en heimamenn þó fimm stigum yfir að honum loknum. Upphafskafli annars leikhluta var síðan flugeldasýning af hálfu Tindastóls. Eftir tvær og hálfa mínútu höfðu þeir gert þrjár 3ja stiga körfur og troðið einu sinni. Frábær stemning í liðinu sem hreinlega valtaði yfir Þórsara í leikhlutanum og var komið 23 stigum yfir í hálfleik. Sorgarsagan var örlítið verri í þriðja leikhluta, sem átti þó varla að vera mögulegt, og munurinn 42 stig fyrir fjórða og síðasta hluta leiksins.

Lið Þórs var óþekkjanlegt frá því fyrir Covid-hléið. Erlendu leikmennirnir voru langt frá sínu besta, lítið gekk upp hjá þeim enda léku allir mun minna en venjulega; Bjarki þjálfari kastaði snemma inn handklæðinu og leyfði þeim að spila sem lítið hafa fengið að spreyta sig í vetur. Eins gott að safna kröftum og gyrða sig í brók fyrir næsta leik, gegn Val að Hlíðarenda á sunnudagskvöldið.

Hinu er ekki að leyna að heimamenn léku gríðarlega vel. Sú leikaðferð þeirra að beita langskotum í miklum mæli gekk upp; fáir hafa roð við Þórsaranum Ivan Alcolado undir körfunni en það skiptir ekki eins miklu máli hve frábær hann er í sínu hlutverki þegar andstæðingurinn hittir jafn vel utan af velli og raunin var í kvöld. Ef ekki er leikin góð gegn stórskyttunum er voðinn vís. Heimamenn voru með rúmlega 60% nýtinga í 3ja stiga skotum þegar langt var liðið á þriðja leikhluta, en sú tala fór reyndar niður í 44% áður en yfir leik. 

 • Dedrick Deon Basile 15 stig – 1 frákast – 3 stoðsendingar (26:56 mín.)
 • Ivan Alcolado 11 stig – 9 fráköst – 1 stoðsending (25:11)
 • Hlynur Freyr Einarsson 8 stig – 1 frákast (16:41)
 • Srdan Stojanovic 7 stig – 3 fráköst (20:29)
 • Ohouo Guy Landry Edi 7 stig – 2 fráköst – 1 stoðsending (20:33)
 • Ragnar Ágústsson 7 stig – 4 fráköst – 2 stoðsendingar (24:00)
 • Andrius Globys 2 stig – 4 fráköst – 1 stoðsending (23:15)
 • Smári Jónsson 3 stig – 1 stoðsending (7:57)
 • Kolbeinn Fannar Gíslason 3 stig (15:26)
 • Páll Nóel Hjálmarsson 2 stig – 1 frákast (4:25)
 • Róbert Orri Heiðmarsson 1 frákast (10:00)
 • Ólafur Snær Eyjólfsson (5:07)

Ingvi Guðmundsson var ekki með Þór í kvöld; þetta var fjórði leikurinn í röð sem hann missir af vegna höfuðhöggs í leik um daginn.

Smellið hér til að skoða alla tölfræðina úr leiknum.

Staðan í deildinni