Fara í efni
Íþróttir

Þorri Mar búinn að skrifa undir hjá Öster

Myndir: Skapti Hallgrímsson og Östers IF

Knattspyrnumaðurinn Þorri Mar Þórisson hefur skrifað undir samning við sænska félagið Östers IF til loka leiktíðarinnar 2026. Akureyri.net greindi frá því fyrir nokkrum dögum að Þorri væri á leið til félagsins en Öster tilkynnti formlega um félagaskiptin í morgun. Félagið, sem leikur í næst efstu deild, Superettan, kaupir dalvíska bakvörðinn af KA.

„Þorri er nútímalegur varnarmaður og býr yfir meiri hraða en algengt er. Hann er spennandi leikmaður sem getur bæði spilað hvorum megin vallarins sem er, en oftast er hann hægri bakvörður. Við höfum mikla trú á að hann henti okkar leikstíl vel," er haft eftir Vivo Stavljanin,  íþróttastjóra Öster, í tilkynningu félagsins.

Þorri segir þar: „Ég er mjög spenntur og glaður að fá tækifæri til að hjálpa Öster að komast aftur upp í Allsvenskan þar sem félagið á heima. Ég get ekki beðið eftir því að berjast fyrir Öster og stuðningsmennina."

Öster er í þriðja sæti deildarinnar að loknum 17 umferðum með 30 stig. Keppni er rúmlega hálfnuð; 16 lið eru í deildinni og leikirnir því 30.

Utsiktens BK og Västerås SK eru efst og jöfn með 39 stig. Tvö efstu liðin fara rakleiðis upp í efstu deild, Allsvenskan, en liðið í þriðja mætir liði úr Allsvenskan í umspili um sæti í deildinni.

Öster tekur á móti liði Gefle í deildinni í dag.