Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA tapaði gegn Val

Úr leik Þór/KA fyrr í sumar. Tahnai Annis sem er hér með boltann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 3:2 gegn Val í 16. umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu nú í kvöld. Karen María Sigurgeirsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir gerðu mörk Þór/KA í leiknum.  

Fyrir leikinn var Valur á toppi deildarinnar með 33 stig en Þór/KA var í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig. Það var því ljóst frá upphafi að erfitt verkefni biði heimakvenna.

0:1 - EINFALT MARK GESTANNA

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir heimakonur. En á 10. mínútu kom Lise Dissing Valsliðinu yfir. Markið var afar einfalt. Eftir gott samspil upp vinstri kantinn á milli Amöndu Andradóttur, Lise og Bryndísar Níelsdóttur snéri Amanda af sér varnarmann fyrir utan teig og sendi Lise í gegn. Hún var yfirveguð í færinu og lagði boltann fram hjá Melissu í markinu.

_ _ _

1:1 - FRÁBÆRT JÖFNUNNARMARK KARENAR MARÍU

Heimakonur létu þetta ekki á sig fá og á 16. mínútu var staðan orðin jöfn þegar Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði glæsilegt mark. Eftir hornspyrnu heimakvenna var boltinn skallaður út úr teignum. Þar var Karen fyrst að ná til hans og skoraði með glæsilegu skoti í slánna og inn. Óverjandi fyrir Fanneyju í marki Vals.

_ _ _

1:2 - VALSKONUR NÁ FORYSTUNNI Á NÝ

Undir lok fyrri hálfleiks náðu Valskonur forystunni á ný en Tahnai Annis varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 37. mínútu. Berglind Rós Ágústsdóttir átti þá góðan sprett upp vinstri kantinn og inn í teig Þór/KA. Þar sendi hún boltann fyrir markið en Melissa sló hann út í miðjan teiginn. Þar varð mikið klafs sem endaði með því að boltinn hrökk af Tahnai og í netið. 

Svekkjandi fyrir heimakonur því stuttu áður hafði Sandra María Jessen átt góðan sprett eftir skyndisókn sem endaði með því að hún átti hörku skot sem small í slánni og niður en því miður fyrir Þór/KA liðið var boltinn ekki inni. Staðan var 2:1 Valskonum í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

_ _ _

1:3 - ÁSDÍS KAREN GERIR ÚT UM LEIKINN

Gestirnir voru töluvert sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum og ógnuðu mun meira. Heimakonur fengu gott færi á 59. mínútu eftir gott spil en Hulda Ósk var þá hársbreidd frá því að ná til boltans eftir góða sendingu fyrir markið frá Söndru Maríu Jessen. Á 79. mínútu leiksins kom þriðja mark Vals sem gerði um leið út um leikinn. Elísa Viðarsdóttir fékk þá boltann ein úti hægra megin og átti sendingu fyrir markið. Ásdís Karen náði til boltans og átti skot sem Melissa varði. Ásdísi tókst af miklu harðfylgi að ná frákasti og moka boltanum yfir línuna.

_ _ _

2:3 - SÁRABÓTAMARK Í LOKIN

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma náðu heimakonur að minnka muninn í 3:2. Bríet Jóhannsdóttir sem hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður gerði markið. Sandra María gerði þá virkilega vel í að vinna Elísu Viðarsdóttur í kapphlaupi um boltann og keyra að teignum. Hún náði upp að endamörkum þar sem hún átti góða sendingu inn í teig. Bríet kom þá á ferðinni og skoraði af fjarstönginni. Góð sókn og gott mark en því miður kom þetta of seint. Lokatölur á VÍS-Vellinum (Þórsvelli) í kvöld urðu því 3:2 Valskonum í vil.

_ _ _

Þrátt fyrir fína spilamennsku Þór/KA á köflum í leiknum er ekki hægt að segja annað en að sigur Valskvenna hafi verið verðskuldaður. Þær stjórnuðu leiknum lengst af og fengu töluvert fleiri færi. En það er stutt á milli í fótbolta og erfitt að segja hvernig leikurinn hefði þróast ef sláarskot Söndru Maríu Jessen í stöðunni 1:1 hefði endað í netinu.

Eftir leikinn er Þór/KA áfram með 22 stig í fimmta sæti deildarinnar. Stjarnan getur komist upp fyrir Akureryarliðið vinni þær Breiðablik en sá leikur fer fram á morgun. Næsti leikur Þór/KA er þann 20. ágúst næstkomandi þegar liðið mætir Selfyssingum. 

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni.