Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA spáð 3. sæti – fær Bryndísi að láni frá Val

Leikmenn Þórs/KA fagna marki í Lengjubikarkeppninni í vetur. Frá vinstri: Karen María Sigurgeirsdóttir, Margrét Árnadóttir, Sandra María Jessen, Hulda Ósk Jónsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA er spáð 3. sæti efstu deildar Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Bestu deildinni. Niðurstaða þess árlega samkvæmisleiks, spár fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða deildarinnar, var birt á kynningarfundi í gær.

Spá­in í heild er svona:

  • 1. Val­ur
  • 2. Breiðablik
  • 3. Þór/​KA
  • 4. Stjarn­an
  • 5. FH
  • 6. Þrótt­ur R.
  • 7. Vík­ing­ur R.
  • 8. Fylk­ir
  • 9. Kefla­vík
  • 10. Tinda­stóll

Besta deild kvenna hefst um helgina og stelpurnar í Þór/KA ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þær sækja Íslandsmeistara Vals heim að Hlíðarenda á sunnudaginn, 21. apríl. Leikurinn hefst kl. 15.00.

Í 2. umferð, um aðra helgi, leikur Þór/KA við FH í Hafnarfirði og fyrsti heimaleikurinn verður síðan gegn Þrótti í 3. umferð, fimmtudaginn 2. maí.

Í vikunni var tilkynnt að Þór/​KA hafi samið við knattspyrnudeild Vals um að fá Bryndísi Eiríksdóttur lánaða í sumar. Bryndís, sem er 18 ára, æfði með Þór/KA um liðna helgi og tók þátt í æfingaleik gegn Völsungi.

Á heimasíðu Þórs/KA segir í morgun:

„Bryndís er yngri systir Örnu sem kom til félagsins, einnig á láni frá Val, sumarið 2022. Þær systur eru ekki alveg ókunnar Norðurlandinu enda ættaðar frá Húsavík í föðurætt, en móðir þeirra, Guðrún Sæmundsdóttir, lék með Val og var á meðal fremstu knattspyrnukvenna landsins á sínum tíma.

Bryndís lék með yngri flokkum Víkings, en hefur verið samningsbundin Val frá árinu 2022. Hún á að baki leiki með KH í 2. deild og HK í Lengjudeildinni á lánssamningi frá Val, auk leikja með Val í Lengjubikar, en hefur ekki komið við sögu í leikjum í Bestu deildinni.“

Mynd af heimasíðu Þórs/KA