Fara í efni
Íþróttir

Þórður Tandri semur við Stjörnuna

Þórður Tandri í leik gegn Aftureldingu í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Þórður Tandri í leik gegn Aftureldingu í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórður Tandri Ágústsson, hinn stórefnilegi línumaður Þórs í handbolta, hefur samið við Stjörnuna í Garðabæ og gengur til liðs við félagið í sumar. Stjarnan tilkynnti þetta í morgun.

„Hann hefur slegið í gegn hjá Þór Akureyri undanfarið og vakið mikla athygli fyrir vinnusemi og harðfylgi. Þórður er 21 árs gamall og er línumaður. Hann kemur í hóp góðra drengja sem hafa alist upp norðan heiða en spila nú með Stjörnunni,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.

„Þórður Tandri ólst upp í Þorpinu og byrjaði að æfa handbolta 9 ára, hann þótti fljótlega efnilegur línumaður og hefur tekið miklum framförum á undanfarin tvö ár. Nú er hann talinn með efnilegustu línumönnum landsins.

Þórður er grjótharður og getur spilað bæði vörn og sókn. Hann mun vera góð viðbót við Stjörnuliðið og verður gaman að fylgjast með Þórði í Garðabænum næstu árin,“ segir í tilkynningu frá Stjörnunni.

Fyrir í liði Garðbæinga eru Þórsararnir Hafþór Vignisson og Brynjar Hólm Grétarsson og KA-maðurinn Dagur Gautason.

Handbolti.is segist hafa heimildir fyrir því að fleiri lið hafi sýnt Þórði Tandra áhuga.