Fara í efni
Íþróttir

Þór náði ekki að klífa varnarmúr Vals

Dedrick Deon Basile var stigahæstur Þórsara í gærkvöldi. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar töpuðu öðrum leiknum í röð í Domino's deild Íslandsmótsins í gærkvöldi þegar þeir mættu Valsmönnum að Hlíðarenda. Sigur Valsmanna var ótrúlega öruggur, 99:68, og Þórsarar hafa þar með tapað báðum leikjunum illa, eftir að keppni hófst á ný eftir mánaðarlangt Covid hlé.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 23:29 – 23:11 (46:40) – 25:14 – 28:14 (99:68)

Þórsarar léku afbragðs vel í fyrsta leikhluta í gær, eins og á Sauðárkróki í síðustu viku og höfðu sex stiga forystu að honum loknum, 29:23. Það sem eftir lifði leiks gerði hins vegar ekki nema 39 stig! Það er ótrúleg tölfræði hjá jafn góðum leikmönnum og skipa Þórsliðið en Valsmenn léku frábæra vörn í gær.

„Valsmenn spiluðu frábæra í vörn í dag og fá hrós fyrir það. Þeir stóðu sig virkilega vel. Þetta er auðvitað frábært lið og vel mannað og gaman að sjá þennan Jordan Roland í nærmynd. Þetta er flottur spilari. Valsliðið er líklegt til mikilla afreka,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs við Vísi eftir leik.

Blaðamaður Vísis nefnir að umræddur Roland hafi þó ekki boðið upp á sömu flugeldasýninguna og oft áður en samt gert 24 stig. Vörnin hafi verið lykilinn að sigri Vals. „Valsmenn ýttu okkur út úr því sem við vildum gera. Þeir eru hoknir af reynslu og sýndu frábæran varnarleik,“ sagði Bjarki við Vísi.

Þór hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og það illa. Vísir spurði Bjarka hvort hann óttaðist jafnvel að missa af úrslitakeppninni:

„Jájá, alveg eins. En það er bara Höttur á fimmtudaginn og við sjáum bara til þegar það er búið að telja upp úr hattinum í lokin. Það er gott að það sé stutt á milli þegar illa gengur,“ sagði Bjarki.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum