Fara í efni
Íþróttir

Þór gegn Grindavík heima – KA úti gegn FH

Innilegur fögnuður í síðustu leikjum. Til vinstri: Þórsararnir Kristófer Kristjánsson og Aron Ingi Magnússon eftir að sá fyrrnefndi náði forystu gegn Gróttu – til hægri: Daníel Jakobsson og Andri Fannar Stefánsson eftir að Daníel kom KA í 3:1 í bikarleiknnum gegn Val. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Karlalið bæjarins í knattspyrnu verða bæði í eldlínunni í kvöld, Þórsarar á heimavelli en KA-menn í Hafnarfirði.

  • Þór - Grindavík

Leikurinn hefst á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) klukkan 18.00. Hann er liður í 6. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins. Liðin áttu að mætast snemma í júní en leiknum var frestað.

Eftir kvöldið hafa öll lið deildarinnar lokið 11 leikjum og hefðbundin deildarkeppni verður þar með hálfnuð. Grindavík er nú í fjórða sæti með 16 stig en Þór í sjöunda sæti með 13. Nái Þórsarar að sigra fara þeir því upp að hlið Grindvíkinga, og ÍR-inga sem einnig eru með 16 stig.

Stigin þrjú sem barist verður um í kvöld eru afar dýrmæt eins og gefur að skilja því þegar upp verður staðið í haust fara liðin í 2.-5. sæti í umspil um laust sæti í Bestu deildinni á næsta ári en efsta liðið fer beint upp.

Þórsarar hafa fengið sjö stig úr síðustu þremur leikjum; unnu Dalvík/Reyni á útivelli, gerðu jafntefli við ÍR í Reykjavík og unnu síðan Gróttu á heimavelli á fimmtudaginn.

  • FH - KA

Flautað verður til leiks á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði kl. 19.15 og viðureignin sýnd beint á Stöð2 Sport.

KA er í 10. sæti Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, með 11 stig eftir 12 leiki en FH í fimmta sæti með 20 stig, einnig að loknum 12 leikjum.

KA á tvo einn leik til góða á sum lið deildarinnar en tvo til góða á önnur. Með sigri í kvöld kæmust KA-strákarnir upp í áttunda sæti, að hlið KR sem lokið hefur 13 leikjum. Eftir kvöldið á KA leik til góða á Stjörnuna sem er í sjötta sæti með 17 stig og það sæti væri því í seilingarfjarlægð. Tapi KA hins vegar í kvöld yrði liðið jafnt Vestra í næst neðsta sæti og bæði lið með jafn marga leiki.

KA-menn hafa eflst mjög upp á síðkastið eftir erfitt gengi framan af sumri. Þeir hafa unnið síðustu þrjá leiki, Fram og HK í deildinni og Val í undanúrslitum bikarkeppninnar í síðustu viku. Tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleiknum annað árið í röð.