Fara í efni
Íþróttir

„Það slysaðist nú þannig til, að ég vann“

Akureyringurinn Örn Indriðason á innri brautinni og Gunnar Snorrason úr Kópavogi á þeirri ytri. Myndin er sennilega frá Vetraríþróttahátíðinni á Akureyri 1970 að mati Ásgríms Ágústssonar ljósmyndara á Akureyri. Skjáskotið er úr Þjóðviljanum 1. febrúar 1983, þar sem sagði að þetta væru Skúli Ágústsson og Hjalti Þorsteinsson á síðasta Íslandsmóti í greininni, á Akureyri árið 1961. Ásgrímur segir það rangt.

Vormót Skautasambands Íslands fer fram í Skautahöllinni á Akureyri í dag og á morgun. Keppt er í listskautun í allan dag og megnið af morgundeginum, en í kvöld verður sjaldséður viðburður þegar keppt verður í skautahlaupi. Akureyri.net heldur áfram að glugga í gömul blöð og rifja upp fréttir af skautahlaupi. Sjón er auðvitað sögu ríkari, fyrir áhugasöm auðvitað best að drífa sig í Skautahöllina í kvöld og fylgjast með keppni í skautahlaupinu.


Síðast var keppt í skautahlaupi í Reykjavík á Melavellinum 1960. Eingöngu Akureyringar tóku þátt í hlaupinu, en hér eigast við Björn Baldursson og Skúli Ágústssson. Myndin er úr Þjóðviljanum 1. febrúar 1983, skjáskot af timarit.is. 

Í tilefni af 50 ára afmæli Skautafélags Akureyrar var fjallað um skautaíþróttirnar í helgarblaði Dags 13. mars 1987. Þar er meðal annars sagt frá afrekum og Íslandsmetum Eddu Indriðadóttur og vitnað í viðtal við hana frá því tíu árum áður.

Edda bjó í Innbænum og byrjaði ung að árum að stunda skautaíþróttina. Hún varð fyrst Íslandsmeistari í hraðhlaupi 1951, á Íslandsmótinu sem haldið var hér á Akureyri. Reykvíkingar sendu þá lið hingað á mótið og í þeim hópi var ein stúlka. Akureyringum þótti skömm að því að láta hana keppa eina og því var Edda send á móti henni í 500 og 1500 metra hlaupi. En það slysaðist nú þannig til, að ég vann, mér til mikillar undrunar og öðrum sjálfsagt líka, sagði Edda í samtali við Dag fyrir 10 árum.

Í umfjöllun Dags 1987 er sagt frá gildandi Íslandsmetum Eddu í fjórum vegalengdum skautahlaupsins og verður að gera ráð fyrir að þau met standi enn í dag.

  • 500 m – 60 sekúndur
  • 1.000 m – 2:08,3 mínútur
  • 1.500 m – 3:19,1 mínútur
  • 3.000 m - 7:12,4 mínútur

Örn Indriðason sagði frá skautaiðkuninni í umfjölluninni í Degi 1987.

„Maður byrjaði mjög ungur að fara á skauta en búnaðurinn var ekki upp á marga fiska í þá daga. Ég bjó í Innbænum og það var hægt að skrúfa skautana neðan á skóna heima í eldhúsi og síðan þurfti að fara yfir götuna og þá var maður kominn á svellið. Aðstaðan var önnur í þá daga en hún er í dag og það var miklu meiri rómantík yfir þessu í gamla daga,“ segir Örn meðal annars í umfjöllun Dags.

Örn keppti í fyrsta skipti í skautahlaupi í desember 1951, sjö ára gamall. Hann eignaðist alvöru hlaupaskauta 1956 og fór þá að taka meiri þátt í íþróttinni. „Skemmtilegasta mótið sem ég tók þátt í, var Íslandsmótið árið 1961 en þá tókst mér að vinna skautahlaupið í öllum vegalengdum,“ sagði Örn í viðtalinu 1987.