Fara í efni
Íþróttir

Sveitarómantíkin dugði ekki gegn KA

KA-menn fagna með Dusan Brkovic, fyrir miðri mynd, eftir að hann skoraði öðru sinni í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Allt var með felldu á KA-vellinum í kvöld þegar eitt af bestu knattspyrnuliðum landsins tók á móti Uppsveitum í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar. Strákarnir úr uppsveitum Árnessýslu leika í 4. deild, fimmtu efstu deild Íslandsmótsins, og höfðu að sjálfsögðu ekki erindi sem erfiði. 

Staðan í hálfleik var 4:0 og það áhugaverðasta var í raun að þá hafði varnarmaðurinn frábæri, Dusan Brkovic, gert tvö mörk. Þetta var 55. „alvöru“ leikur hans með KA og þar til í dag hafði hann skoraði einu sinni – gerði fyrra markið í 2:0 sigri á Skagamönnum í efstu deild Íslandsmótsins (sem þá var kenndi við PepsiMax) 16. júní 2021.

Færeyski framherjinn Pætur Petersen gerði fyrsta og þriðja markið í kvöld og Dusan það annað og fjórða. Í seinni hálfleik bætti Sveinn Margeir Hauksson fimmta markinu við.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Grenvíkingurinn Hjörtur Geir Heimisson stóð óvænt í marki Uppsveita gegn KA í dag. Hjörtur Geir, sem verður 32 ára 1. maí, hafði ekki tekið þátt í opinberum leik síðan í mars 2018 þegar hann lék með Magna í Lengjubikarkeppninni. Þjálfari Uppsveita, Liam John Michael Killa, lék með Hirti Geir með Magna í 3. deildinni sumarið 2012 og hringdi í sinn gamla samherja þegar hann vantaði mann til að standa á milli stanganna í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson