Fara í efni
Íþróttir

Styrkleikar í þágu Krabbameinsfélagsins

Myndir: Hilmar Friðjónsson

Starfsfólk og nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri standa í dag fyrir Styrkleikum í þágu Krabbameinsfélags Íslands. VMA er fyrsti framhaldsskóli landsins til að standa fyrir slíkum viðburði, að því er segir á vef skólans og vert er að geta þess að í tengslum við Styrkleikana er áheitasöfnun þar sem safnað er fé fyrir Krabbameinsfélagið.

Það eru skólinn og nemendafélagið Þórduna sem standa fyrir viðburðinum, sem hefur það að markmiði „að sýna þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra stuðning og styrk.“ Nemendur og starfsfólk taka höndum saman og halda boðhlaupskefli á lofti í 12 tíma – gengið verður með það í kringum skólann í 12 tíma; gangan hófst klukkan 8.30 í morgun og ekki verður látið staðar numið fyrr en kl. 20.30 í kvöld.

Benedikt Barðason skólameistari setti Styrkleikana í Gryfjunni klukkan hálf níu í morgun og verkefni dagsins lýkur á sama stað í kvöld. Fólk er hvatt til að klæðast fjólubláu í dag, sem er litur Styrkleikanna.

„Hver og einn fer á sínum hraða í göngunni og í sameiningu sér hópurinn um að klára verkefnið,“ segir á vef VMA. „Hver og einn þátttakandi skráir sig í gönguna í kringum skólann með keflið. Hringurinn endar við A-inngang skólans og þar tekur nýr eða nýir við keflinu. Það er bæði hægt að labba einn með keflið, í pari, hóp, afturábak, á höndum eða hvernig sem er. Skólameistari hefur gefið leyfi fyrir því að lífsleiknihópar taki sig saman og gangi með keflið í stað kennslustunda í lífsleikni í dag.“

Benedikt Barðason skólameistari setur Styrkleikana í Gryfjunni um klukkan hálf níu í morgun.

Samstaða, samvera, samhugur

„Aðalmarkmið verkefnisins er að vekja athygli á mikilvægu málefni og að sameina krafta okkar fyrir góðan málstað. Styrkleikarnir byggjast á samstöðu, samveru og samhug nemenda og starfsfólks sem vilja sýna stuðning, virðingu og samkennd með þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum krabbameins,“ segir á vef skólans.

„Í tengslum við Styrkleikana verður áheitasöfnun þar sem safnað er fé fyrir Krabbameinsfélag Íslands. Það fé sem safnast nýtist til krabbameinsrannsókna ásamt því að veita þeim sama hafa greinst með krabbamein ráðgjöf og þjónustu. Þjónusta Krabbameinsfélagsins er öllum að kostnaðarlausu og gerir verkefni eins og Styrkleikana meðal annars félaginu kleift að halda úti þjónustunni.“

Hér er er hlekkur á áheitasöfnunina:

Styrkleikar VMA og nemendafélagsins Þórdunu