Studera.is aðstoðar nýbúa við íslenskunám
Þeir Hans Rúnar Snorrason og Bergmann Guðmundsson hafa undanfarin misseri unnið hörðum höndum að þróun gervigreindarþjónustu sem virkar eins og persónulegur aðstoðarkennari fyrir fólk sem vill læra íslensku. Lausnin er komin í loftið á vefslóðinni studera.is og þar geta einstaklingar af erlendu bergi brotnir aukið færni sína í íslensku upp á eigin spýtur og fengið endurgjöf á frammistöðuna.
Þeir félagar eru búnir að leggja gríðarlega mikinn tíma og fjármagn í að þróa þessa lausn og náð að byggja upp gervigreindarþjónustu sem virkar eins og „persónulegur einkakennari“ sem er til staðar allan sólarhringinn. Kerfið hlustar á notandann tala, leiðréttir framburð og tekur hann í aðstæður þar sem hann þarf að svara á íslensku. Kerfið er byggt upp sem fjöltyngdur vefur og í byrjun er hann á 15 tungumálum og Hans Rúnar segir að einfalt sé að bæta við tungumálum. „Það er ekkert mál fyrir okkur að bæta við fleiri tungumálum. Markmiðið er að notendur fái stuðning á sínu móðurmáli,“ segir Hans Rúnar.
Hægt að eiga samtöl við „kennarann“ og fá endurgjöf
„Við trúum því að íslenskan sé lykillinn að samfélaginu og viljum gefa öllum tækifæri til að grípa þann lykil. Mig svíður í kennarahjartað þegar ég heyri umræðuna um að nýbúar geti ekki lært eða að erlendum íbúum okkar finnist erfitt að komast í nám í íslensku. Staðreyndin er sú að úrræðin hefur vantað. Fólk sem vill læra kemst ekki alltaf á námskeið og það hefur sárvantað leið þar sem hægt er að bjarga sér sjálfur. Að læra íslensku er líka bara eins og íþrótt. Þú lærir ekki tungumál á einu námskeiði. Þú þarft að æfa þig og læra af mistökum aftur og aftur,“ segir Hans Rúnar. Hann bætir við að undanfarið rúmt ár hafi þeir sankað að sér efni, smíðað örugglega um 100 prótótýpur og lagt ómældan tíma í verkefnið – sem nú hefur litið dagsins ljós.
Vefurinn studera.is er ekki bara orðabók - líka talþjálfi, eins og Hans Rúnar útskýrir:
- Orðaforði og framburður: Kerfið hlustar á þig
- Setningar: Þú æfir í samhengi
- Samtal: Þú getur átt merkilega eðlilegt samtal við gervigreindina Rebekku (pantað kaffi, farið í búð o.fl.) og fengið endurgjöf strax á því hvernig þér gengur
Þeir félagar hafa mikla reynslu bæði úr menntakerfinu og tækniheiminum, eins og akureyri.net fjallaði um fyrr á þessu ári. Til að mynda fengu þeir hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna í fyrra, fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti. Þeir segja að þau verðlaun hafi hvatt þá til dáða til að gera enn meira og betur.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti Hans og Bergmann Íslensku menntaverðlaunin á Bessastöðum í nóvember í fyrra. Mynd: Mummi Lú
- Umfjöllun akureyri.net um Íslensku menntaverðlaunin í fyrra og viðtal við Bergmann og Hans Rúnar um upplýsingatæknilausnir þeirra: