Fara í efni
Íþróttir

Stórt tap KA í Neskaupstað

Miguel Mateo Castrillo tókst ekki að leiða sína menn til sigurs í Neskaupstað í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið KA í blaki sótti Þrótt í Fjarðabyggð heim í kvöld í Unbrokendeildinni, efstu deild karla í blaki. KA strákarnir náðu sér aldrei almennilega á strik í leiknum og endaði leikurinn með stórsigri Þróttar, 3-0.

Í fyrstu hrinunni byrjuðu KA menn ágætlega en ekki leið á löngu þangað til að Þróttur náði forystunni og sigraði að lokum 25-22. Í annarri hrinu ríkti meira jafnræði með liðunum og skiptust þau á að ná forystunni en að lokum stungu heimamenn af og endaði hrinan 25-21. Í þriðju hrinunni héldu Þróttarar forystunni mestallan tímann. KA náði þó að klóra í bakkann og jafna í stöðunni 18-18 en það dugði því miður ekki og endaði hrinan með 25-22 sigri heimamanna.

Fyrir leikinn voru KA menn í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig og Þróttur í því fimmta með 9 stig. Með sigrinum kemst Þróttur í 12 stig og nálgast KA menn, sem eiga þó einn leik til góða gegn Stál-Úlfi, sem situr á botni deildarinnar.

Næsti leikur KA manna er heimaleikur gegn Aftureldingu, sem situr í öðru sæti deildarinnar, þann 2. desember í KA heimilinu.