Fara í efni
Íþróttir

Stórskemmtilegt en súrt fyrir Þórsara að tapa

Þórsarar fagna eftir að Ólafur Aron Pétursson kom Þórsurum í 2:1 með hnitmiðuðu skoti utan teigs. Lj…
Þórsarar fagna eftir að Ólafur Aron Pétursson kom Þórsurum í 2:1 með hnitmiðuðu skoti utan teigs. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.

Leikur Þórs og Gróttu á Seltjarnarnesi í kvöld, í 1. umferð næst efstu deildar Íslandsmótsins í fótbolta, Lengjudeildarinnar, var stórskemmtilegur. Grótta vann 4:3 en þrátt fyrir tapið lék Þórsliðið að mörgu leyti vel. Að skora þrjú mörk á útivelli er afar gott, en að fá á sig fjögur auðvitað að sama skapi slæmt.

Gróttumenn voru sterkari á upphafsmínútunum en Þórsarar létu það ekki á sig fá, biðu átekta og gerðu svo fyrsta markið á 15. mínútu. Og þvílíkt mark! Dæmd var aukaspyrna á Gróttu nokkru fyrir utan vítateig og hollenski miðjumaðurinn Liban Abdulahi skoraði með glæsilegu skoti.

Abdulahi þessi sýndi í kvöld að þar er alvöru leikmaður á ferðinni; hann hefur góða yfirsýn, mjög gott auga fyrir spili og boltinn er eins límdur við hann. Þeir Ólafur Aron Pétursson ná vel saman inni á miðjunni.

Pétur Theódór Árnason jafnaði fyrir Gróttu úr víti eftir rúman hálftíma og staðan var 1:1 í hálfleik.

Það var svo Ólafur Aron sem kom Þór yfir eftir klukkutíma leik með hnitmiðuðu skoti utan vítateigs. Eftir laglegt spil lagði Jakob Snær Árnason boltann til hliðar á félaga sinn sem sá glufu í vörninni og sendi boltann í hornið fjær. Afar vel gert.

Pétur Theodór var aftur á ferðinni fimm mín. eftir markið þegar hann skoraði með skalla eftir horn. Margmenni var á litlu svæði framan við Þórsmarkið en hann stóð upp úr – enda um 2 metrar á hæð – og stýrði boltanum í netið.

Ekki leið á löngu þar til Pétur gerði þriðja markið. Þórsarar sváfu illilega á verðinum, Pétur var óvaldaður á markteig og skoraði auðveldlega eftir fyrirgjöf. Fjórða mark Gróttu svo kom úr víti sem enginn skilur sennilega enn á hvað var dæmd, hvorki Þórsari né Gróttumaður. Þvaga var í vítateignum þegar Gróttumaður tók hornspyrnu og dómarinn blés í flautuna. Enginn virtist biðja um neitt en hann benti á vítapunktinn. Sölvi Björnsson skoraði úr vítinu og staðan orðin 4:2.

Ólafur Aron gerði annað mark sitt og þriðja mark Þórs rúmum 10 mínútum fyrir leikslok, úr víti, og Þórsarar voru ekki langt frá því að jafna. Bjarki Þór Viðarsson átti lúmskt skot sem fór í þverslá og Fannar Daði Malmquist skaut rétt framhjá.

Á lokaandartökunum slapp títtnefndur Pétur, framherji Gróttu, einn í gegnum vörn Þórs eftir langa sendingu, miðvörðurinn Petar Planic braut á honum og var rekinn af velli. Hann missir því af næsta leik, gegn Grindavík á heimavelli næsta fimmtudag.

Þórsarar geta ágætlega við unað þrátt fyrir tapið, eins og áður sagði. Góður bragur var á leik liðsins og þegar framherjinn Alvaro Montejo verður kominn til landsins og Sigurður Marinó Kristjánsson og Orri Sigurjónsson orðnir góðir af meiðslum má gera ráð fyrir liðinu enn sterkara. Daði Freyr Arnarsson, markvörðurinn sem Þór fékk lánaðan frá FH, er augljóslega góður og verður ekki sakaður um mörkin. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna