Fara í efni
Íþróttir

Stórleikur KA og Vals verður á Dalvík

Hallgrímur Mar Steingrímsson og Kári Árnason í leik KA og Víkings á Dalvík fyrr í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA tekur á móti Val á morgun, sunnudag, í Pepsi Max deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Viðureign liðanna verður á gervigrasvellinum á Dalvík líkt og fyrri heimaleikir KA-manna í sumar. Akureyrarvöllur (Greifavöllurinn) er enn ekki tilbúinn en vonast er til þess að leikurinn við KR 5. júlí geti farið fram þar.

KA-menn eru í mjög góðum málum í toppbaráttunni. Valur er í efsta sæti með 20 stig að loknum níu leikjum, Víkingar hafa 18 stig eftir átta leiki og KA er með 16 stig, en hefur aðeins lokið sjö leikjum. Nái KA að vinna Íslandsmeistara Vals á morgun verður liðið einu stigi á eftir meisturunum og ætti samt tvo leiki til góða, og yrði þá einu stigi fyrir ofan Víking eftir jafn marga leiki.

Leikur KA og Vals hefst klukkan 16.00.