Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnar með níu fingur á bikarnum

Teresa Snorradóttir og Hilma Bergsdóttir þjarma að markverði Fjölnis, andartökum áður en Teresa gerð…
Teresa Snorradóttir og Hilma Bergsdóttir þjarma að markverði Fjölnis, andartökum áður en Teresa gerði áttunda mark SA í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar burstaði lið Fjölnis, 13:1, í fyrri úrslitaleik Íslandsmótsins í íshokkí í skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Óhætt er að tala um fyrri úrslitaleik þótt þrír séu settir á dagskrá til öryggis; tvo sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og annað er óhugsandi en Akureyrarliðið vinni aftur þegar liðin mætast í Reykjavík á fimmtudaginn. Að vísu er ekkert ómögulegt í íþróttum, en næstum allt.

Staðan eftir fyrsta leikhluta í kvöld var 7:0, SA gerði fjögur mörk í öðrum leikhluta og tvö í þeim síðasta. Staðan var orðin 13:0 áður en gestirnir skoruðu í lokin.

Sunna Björgvinsdóttir gerði 3 mörk í kvöld, Saga Sigurðardóttir og Hilmar Bergsdóttir 2 hvor og þær María Eiríksdóttir, Kolbrún Garðarsdóttir, Berglind Leifsdóttir, Jónína Guðbjartsdóttir, Teresa Snorradóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir allar eitt hver. Laura Murphy gerði mark Fjölnis.