Fara í efni
Íþróttir

Aftur frestað hjá stelpunum í KA/Þór

Rakel Sara Elvarsdóttir hefur leikið mjög vel í vetur. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Uppfært klukkan 12.14 - Leiknum hefur aftur verið frestað vegna veðurs. Stefnt er að því að liðin mætist á morgun.

_ _ _ _ _

Stelpurnar í handboltaliði KA/Þórs áttu að mæta HK í Olísdeild Íslandsmótsins í Kópavogi í gær en komust ekki lengra en í Staðarskóla, þar sem Holtavörðuhæðin var ófær. Önnur tilraun verður gerð í dag og vonandi verður flautað til leiks klukkan 18.00.

KA/Þór var á toppnum í gærmorgun með 17 stig eftir 11 leiki, stigi á undan Fram, en Framarar unnu Stjörnuna mjög örugglega í gærkvöldi og eru því komnir á toppinn með 18 stig. Stelpurnar okkar komast einu stigi upp fyrir Fram á ný með sigri í kvöld. HK er sem stendur með níu stig eftir 11 leiki.

Leikur HK og KA/Þórs hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á youtube rás HK. Smellið hér til að horfa.

Eftir leik kvöldsins verða tvær umferðir eftir af deildinni, í þeirri fyrri tekur KA/Þór á móti Val þriðjudaginn 30. mars og í lokaumferðinni, sunnudaginn 5. apríl, mætir KA/Þór liði Fram í Reykjavík. Að því loknu tekur við úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.