Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnar í KA/Þór einar í efsta sætinu

Rakel Sara Elvarsdóttir fer inn úr horninu í dag - hún gerði sex mörk í leiknum. Ljósmynd: Þórir Try…
Rakel Sara Elvarsdóttir fer inn úr horninu í dag - hún gerði sex mörk í leiknum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Stelpurnar í KA/Þór eru einar í efsta sæti Olísdeildar Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir leiki dagsins, þegar þrjár umferðir eru eftir. Þær gengu að vísu heldur svekktar af velli eftir jafntefli gegn Haukum á heimavelli, 27:27, en þar sem Fram tapaði fyrir ÍBV í Eyjum, 26:24, eru stelpurnar okkar stigi á undan Frömurum, hafa 17 stig en Fram 16. Svo skemmtilega vill til að liðin mætast í Reykjavík í lokaumferð deildarinnar.

KA/Þór var skrefinu á undan megnið af fyrri hálfleik gegn Haukum í dag, komst nokkrum sinnum þremur mörkum yfir en gestirnir sýndu góða takta og jöfnuðu á lokasekúndunni, 13:13.

Seinni hálfleikurinn var ekki síður spennandi, stelpurnar okkar lengst af með eins eða tveggja marka forskot en þegar rúmar 10 mínútur voru eftir kom hin sænska Sara Odden Hafnfirðingum yfir, 22:21, þegar hún skoraði yfir endilegan völlinn. Matea Lonac, markvörður, var þá utan vallar; Andri Snær þjálfari greip það til bragðs til að hafa sex leikmenn sína gegn sex varnarmönnum, þar sem einn leikmanna KA/Þórs hafði verið rekinn út af.

Eftir þetta var jafnt á öllum tölum. Þegar ein og hálf mínúta var eftir kom áðurnefnd Sara Odden Haukum yfir með glæsilegu skoti. Kristínu A. Jóhannsdóttur hafði þá nýlega verið vikið af velli. Rúm mínúta var eftir þegar Andri Snær tók leikhlé og þegar hálf mín. var til leiksloka jafnaði Ásdís Guðmundsdóttur þegar hún fór inn úr vinstra horninu í þröngu færi. Glæsilega gert.

Haukar tóku leikhlé þegar 23 sek.voru eftir og sjö sek. fyrir leikslok fékk Hekla Rún Ámundadóttir dauðafæri; fór inn úr hægra horninu en skaut í stöng. Þar sluppu heimamenn aldeilis með skrekkinn. Ekki var nægur tími til þess að ná skoti á markið hinum megin og jafntefli því niðurstaðan. Sanngjörn úrslit og góð fyrir heimamenn, í ljósi þess hve Haukar voru nálægt því að skora í lokin.

Rut Jónsdóttir fór á kostum í liði KA/Þórs í dag en liðið í heild var töluvert frá sínu besta, bæði í sókn og vörn. „Vörnin var ekki eins þétt og hún hefur verið í vetur og þar af leiðandi var markvarslan ekki góð, á meðan Haukastelpurnar fengu hörku markvörslu,“ sagði Andri Snær við Akureyri.net. „Við erum hundsvekkt með úrslitin en stelpurnar sýndu góðan karakter, að ná að jafna einni færri í lokin. Það var gott að ná í stig úr því sem komið var og nú er það bara næsta verkefni; HK á miðvikudaginn,“ sagði þjálfarinn.

„Ég tek ekkert af Haukastelpunum, þær voru frábærar í dag, leikur þeirra var mjög vel útfærður, bæði í sókn og vörn, en við spiluðum ekki eins og liðið getur. En deildin er ótrúlega skemmtileg og allir leikir erfiðir,“ sagði Andri Snær.

Smellið hér til að sjá tölfræðina úr leiknum

Staða í deildin er þessi:

 • KA/Þór 11 leikir – 17 stig
 • Fram 11 leikir – 16 stig
 • ÍBV 11 leikir – 13 stig
 • Stjarnan 11 leikir - 12 stig
 • Valur 11 leikir - 11 stig
 • Haukar 11 leikir - 10 stig
 • HK 11 leikir - 9 stig
 • FH 11 leikir - 0 stig


Síðustu þrjár umferðirnir:

Miðvikudagur 10. mars

 • HK – KA/Þór
 • Haukar – ÍBV
 • Fram – Stjarnan

Laugardag 27. mars

 • KA/Þór – Valur
 • FH – Fram
 • Stjarnan – ÍBV

Mánudaginn 5. apríl

 • Fram – KA/Þór
 • ÍBV – FH