Fara í efni
Íþróttir

Spennandi rimma við Þórsara framundan

Srdjan Stojanovic lék mjög vel í gær og skoraði meðal annars þriggja stiga körfu sem gerði endanlega út um viðureignina, rúmi mínútu áður en leiknum lauk. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar náðu sjöunda sæti Domino's deildar karla í körfubolta með sigri á Haukum í gærkvöldi, eins og kom fram á Akureyri.net. Þeir mæta nöfnum sínum frá Þorlákshöfn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, næst besta liði deildarinnar í vetur en það hlýtur að gefa Akureyringum byr undir báða vængi að hafa unnið glæstan sigur í Þorlákshöfn í næst síðustu umferðinni þegar þeir gulltryggðu sæti í deildinni næsta vetur.

Leikurinn í gær var afar sveiflukenndur, Þórsarar náðu mest 21 stigs forskoti en munurinn í lokin var aðeins níu stig. Liðið getur leikið frábæran körfubolta, á það hins vegar til að detta niður í meðalmennsku en ef allt er með felldu eiga viðureignir við alla mótherja í deildinni að geta orðið jafnar og spennandi.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 31:15 – 21:28 (52:43) – 29:21 – 15:23 (96:87)

Þórsarar byrjuðu með látum, komust í 28:11 og virtust ætla að kaffæra gestina. Staðan var 31:15 eftir fyrsta leikhluta en það voru svo Haukar sem unnu næsta fjórðung, Þórsarar þann þriðja og virtust nokkuð öruggur um sigur.

Fjórði og síðasti leikhluti var ótrúlegur. Haukur buðu upp á svæðisvörn sem sló Þórsara út af laginu og staðan breyttist úr 81:64 í 84:81 á tæpum fjórum mínútum svo stuðningsmönnum Þórs var hætt að lítast á blikuna. Þeirra menn hittu illa og misstu boltann nokkrum sinnum klaufalega en Haukarnir hrukku hins vegar í gang. Það var svo ekki fyrr en Srdjan Stojanovic, stigahæsti Þórsari leiksins, gerði þriggja stiga körfu þegar rúm mínúta var eftir og breytti stöðuna í 94:87 að áhorfendur gátu andað rólega.

Þórsarar hafa sýnt í vetur að þeir geta unnið nánast hvaða lið sem þegar liðið leikur af eðlilegri getu, en þegar einbeitingu skortir og einstaklingsframtakið er í öndvegi, í stað þeirrar mjög góðu liðsheildar sem er fyrir hendi, geta vopnin snúist í höndum þeirra. Þórsarar unnu nafna sína í Þorlákshöfn í næst síðustu umferðinni, sem hlýtur að gefa þeim aukið sjálfstraust fyrir úrslitakeppnina. Leikstjórnandinn Dedrick Deon Basile verður að vísu í leikbanni í fyrsta leiknum sem verður í Þorlákshöfn, en Júlíus Orri Ágústsson er sem betur fer kominn á ról að nýju eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Hann er vissulega dálítið ryðgaður ennþá en býr yfir svo miklum hæfileikum að vonandi nær hann fljótt á strik eftir því sem mínútunum á parketinu fjölgar.

  • Andrius Globys 10 stig – 4 fráköst – 4 stoðsendingar (36:22)
  • Dedrick Deon Basile 8 stig – 3 fráköst – 7 stoðsendingar (30:48)
  • Júlíus Orri Ágústsson 15 stig – 2 fráköst (13:21)
  • Hlynur Freyr Einarsson 1 frákast – 1 stoðsending (5:09)
  • Srdjan Stojanovic 27 stig – 3 fráköst – 4 stoðsendingar (34:57)
  • Ohouo Guy Landry Edi 13 stig – 5 fráköst – 2 stoðsendingar (30:35)
  • Ivan Aurrecoechea Alcolado 20 stig – 8 fráköst – 2 stoðsendingar (37:24)
  • Páll Nóel Hjálmarsson (00:16)
  • Ragnar Ágústsson (00:16)
  • Kolbeinn Fannar Gíslason 2 fráköst (10:36)
  • Smári Jónsson (00:16)
  • Ólafur Snær Eyjólfsson

Þessar viðureignir eru framundan, í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistartitilinn:

  • Keflavík (1) - Tindastóll (8)
  • Þór Þorlákshöfn (2) - Þór (7)
  • Stjarnan (3) - Grindavík (6)
  • Valur (4) - KR (5)

Dedrick Deon Basile snýr vörn í sókn með Ragnar Nathanaelsson á hælunum.

Júlíus Orri Ágústsson og Ragnar Nathanaelsson.

Ivan Alcolado og Srdjan Stojanovic, bestu leikmenn Þórs í gærkvöldi.

Kolbeinn Fannar Gíslason og Pablo Cesar Bertone, langbesti leikmaður Hauka.

Andrius Globys skorar þegar skammt var til leiksloka.

Ivan Alcolado og Ragnar Nathanaelsson.

Ohouo Guy Landri Edi skorar seint í leiknum.

Samtaka! Dedrick Deon Basile og Guy Landry Edi.