Fara í efni
Íþróttir

Skíði: Sonja Lí keppti á FIS mótum í Noregi

Skíðakonan Sonja Lí Kristinsdóttir. Mynd: skidi.is

Sonja Lí Kristinsdóttir keppti nýlega á tveimur svigmótum og tveimur stórsvigsmótum í Geilo í Noregi. Hún náði að klára báðar ferðir í tveimur mótanna en datt í seinni ferðinni í hinum tveimur. Þetta voru mjög sterk mót og keppendur voru frá öllum skíðamenntaskólum og skíðaliðum í Noregi.

Sonja Lí býr í Geilo og æfir þar með liði NTC Geilo. Í viðtali á vefsíðu Skíðafélags Akureyrar (SKA) var hún þokkalega ánægð með árangurinn en segist eiga meira inni. „Það var gott að byrja tímabilið á heimavelli. Heilt yfir vil ég meina að ég á mikið meira inni en það sem ég sýndi núna um helgina. Finn að ég þurfti að „skíða mig í gang“ og finna smá sjálfstraust,“ segir Sonja Lí í viðtalinu. Að sögn Sonju voru aðstæður nokkuð krefjandi og skyggni ekki gott.

Hún lauk keppni í 28. sæti af 74 keppendum í fyrra stórsviginu, sem er árangur upp á 77,90 FIS punkta og bætti þar með samanlagða punktastöðu sína. Hún náði síðan að klára seinni svigkeppnina og endað þar í 26. sæti af 81 keppanda. Fyrir það fékk hún 78,22 FIS punkta, sem er aðeins hærra en hennar besti árangur.

Nokkur mót til viðbótar eru á dagskránni áður en hún kemur heim til Íslands í jólafrí, það síðasta er 21. desember. Í viðtalinu á vef SKA segist hún vera með skýr markmið fyrir veturinn – fyrst og fremst að komast sem næst 50 punktum í bæði svigi og stórsvigi og þar af leiðandi að komast inn í íslenska landsliðið. „Ég ætla mér svo að halda í titilinn minn sem Íslandsmeistari og mögulega næla mér í fleiri titla á landsmótinu sem fer fram heima á Akureyri,“ sagði Sonja Lí Kristinsdóttir.