Fara í efni
Íþróttir

Sjóðheit spenna bæði á svellinu og í blaki

Miguel Mateo Castrillo og Axel Orongan, til hægri.
Miguel Mateo Castrillo og Axel Orongan, til hægri.

Mikil spenna var í KA-heimilinu í gærkvöldi, annað kvöldið í röð, og í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík. Akureyringar fögnuðu sigri á báðum vígstöðvum.

Axel Orongan tryggði Skautafélagi Akureyrar sigur, 3:2, á Skautafélagi Reykjavíkur í Hertz deildinni í íshokkí í gærkvöldi þegar hann skoraði 22 sekúndum fyrir leikslok. Liðin mættust í Skautahöllinni í Laugardal.

Ekkert var skoraði í fyrstu lotu en Ein­ar Grant kom SA yfir snemma í þeirri næstu. Tíu mín. síðar jafnaði Kári Arn­ars­son en Axel Orong­an kom SA yfir á ný þegar langt var liðið á lotuna.

Pét­ur Maack jafnaði í 2:2 á 53. mín­útu og allt virtist stefna í fram­leng­ingu þegar Axel kom pekkinum í markið í annað sinn, nú eftir undirbúning Heiðars Kristveigarsonar og Egils Birgissonar. Akureyringar hafa þar með unnið alla fjóra leikina á Íslandsmótinu til þessa en lið SR tapað öllum.

Í KA-heimilinu fékk karlalið KA Fylkismenn í heimsókn. KA-menn voru öryggað uppmálað framan af og unnu tvær fyrstu hrinurnar, 25:22 og 25:17. Síðan fór heldur óvænt að blása á móti, næstu tvær hrinur voru hnífjafnar og upphækkun þurfti í báðum. Fylkismenn gerðu sér lítið fyrir og unnu bæði þriðju og fjórðu hrinu, 26:24 í bæði skiptin.

Lengst af fjórðu hrinu leit út fyrir að KA-menn þyrftu að sætta sig við tap. Oddahrina er ekki nema upp í 15, og Fylkismenn voru komnir í 12:6. Þá snerist dæmið heldur betur við; KA-liðið hrökk í gang á ný og jafnaði 13:13. Miguel Mateo Castrillo var mikilvægur í lokin; hann kom  KA í 14:13 með glæsilegri laumu og lauk svo verkefninu með flottu smassi.