Íþróttir
Sigurður Heiðar og Þór semja til 2028
20.09.2025 kl. 23:00

Leikmenn Þórs tollera Sigurð Höskuldsson þjálfara eftir að Þórsliðið vann Þrótt í Reykjavík um síðustu helgi og tryggði sér þar með sigur í Lengjudeildinni og sæti í Bestu deildinni næsta sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari meistaraflokks Þórs í knattspyrnu síðustu tvö ár, hefur gert nýjan þriggja ára samning við félagið. Þetta var tilkynnt á lokahófi meistaraflokks í Sjallanum í kvöld.
Þórsarar réðu Sigurð haustið 2023. Sá samningur var til þriggja ára – til hausts 2026, en þjálfarinn er nú samningsbundinn út leiktíðina 2028.
Stefnan var sett hátt fyrir sumarið í fyrra en liðið náði aðeins 10. sæti í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins. Annað var upp á teningnum í sumar; Þórsarar tryggðu sér sigur í deildinni þegar þeir unnu Þróttara í lokaumferðinni um síðustu helgi og leika í efstu deild, Bestu deildinni, á næsta ári eftir 11 ára fjarveru.