Fara í efni
Íþróttir

Sexmenningar fengu heiðursviðurkenningu

Þau hlutu heiðursviðurkenningu. Frá vinstri: Fylkir Þór Guðmundsson, Þórunn Sigurðardóttir, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Dan Jens Brynjarsson, Unnur Kristjánsdóttir og Þórir Tryggvason. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sex hlutu heiðursviðurkenningu fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar á íþróttahátíð bæjarins og ÍBA í Hofi í dag fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri: Dan Jens Brynjarsson, Fylkir Þór Guðmundsson, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Unnur Kristjánsdóttir, Þórir Tryggvason og Þórunn Sigurðardóttir.

Sexmenningarnir voru kynntir með þessum hætti:

Dan Jens Brynjarsson – Skíðafélag Akureyrar

„Dan Jens Brynjarsson er fæddur á Akureyri þann 17. janúar 1960. Dan hefur verið óþreytandi við að styðja við starfsemi skíðafélagsins lengur en elstu menn muna. Dan hefur varið óteljandi dögum, vikum og mánuðum við að tryggja að mótahald í alpagreinum standist ítrustu kröfur af mikilli fagmennsku. Framlag Dans til Skíðafélags Akureyrar hefur verið ómetanlegt og óeigingjarnt og náð langt umfram það sem gæti talist eðlilegt framlag. Og þrátt fyrir að börn Dans væru löngu hætt að æfa skíði hélt Dan áfram að vera lykilmaður í mótahaldi alpagreina árum saman. Ástríða Dans fyrir skíðaíþróttinni hefur verið öðrum fyrirmynd og framkoma hans við iðkendur verið þeim hvatning enda hefur hann lagt sig fram við að þekkja iðkendur og hvetja áfram við hvert tækifæri. Það er óhætt að fullyrða að framlag, dugnaður og hollusta Dans til skíðaíþróttarinnar á Akureyri á síðustu áratugum hafi verið framúrskarandi.“

Fylkir Þór Guðmundsson – Íþróttafélagið Eik

„Fylkir Þór Guðmundsson er fæddur í Ólafsfirði þann 8. október 1968. Fylkir er mikill íþróttamaður og hefur stundað margar sjálfur og er fjölskylda hans öll mikið íþróttafólk. Hann hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Eik í yfir þrjá áratugi og er yfirþjálfari í boccia. Fylkir er einstaklingur sem hefur gefið mikið af sér til að efla íþróttir fatlaðra og gefa þeim vægi hér á Akureyri. Hann hefur einstaka hæfileika þegar kemur að þjálfun fatlaðra og mætir öllum sínum iðkendum af virðingu, væntumþykju og á jafningjagrundvelli. Fylkir gefur sig alltaf allan í þau verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur og hefur hann meðal annars fylgt iðkendum sínum á mót hérlendis og erlendis í hinum ýmsu íþróttagreinum. Fylkir er hlýr og jákvæður einstaklingur sem hefur gefið ómælda vinnu og tíma í þágu íþrótta fatlaðra og er alltaf til staðar fyrir sitt fólk. Fylkir hefur fyrir störf sín í þágu íþrótta fatlaðra hlotið silfur- og gullmerki Íþróttasambands fatlaðra.“

Jóhannes Gunnar Bjarnason – Knattspyrnufélag Akureyrar

„Jóhannes Gunnar Bjarnason er fæddur á Akureyri þann 31. mars 1962. Jóhannes lék fótbolta og handbolta á yngri árum með KA og lék svo síðar með meistaraflokksliði KA í handbolta. Samhliða leikmannaferlinum hefur Jóhannes þjálfað yngri flokka KA í handbolta sem og meistaraflokk KA í handbolta. Hann gerði liðið m.a. að bikarmeisturum árið 2004. En kraftur og einbeiting Jóa var og hefur verið á þjálfun og uppbyggingu yngri flokka KA í handbolta og er hann í dag einn sigursælasti yngriflokkaþjálfari Íslandssögunar. Þannig er Jóhannes einstaklingurinn á bak við hið öfluga handboltastarf KA og hefur hann komið að þjálfun ótrúlega margra handbolta iðkenda sem saman hafa unnið fjöldann allan af titlum en ennþá mikilvægara er hversu marga einstaklinga Jóhannes hefur skilað upp til félagsins, sem félagsmenn og sjálfboðaliða. Jóhannes hefur alltaf lagt mikið upp úr félagsandanum og er fyrirmynd margra þjálfara og leikmanna í handbolta íþróttinni í dag. Jóhannes er handhafi gullmerkis KA og var sæmdur gullmerki HSÍ árið 2013 fyrir sitt framlag til handknattleiksíþróttarinnar. Ómetanlegt framlag Jóhannesar við uppbyggingu handboltans í KA og handbolta íþróttarinnar á Íslandi í gegnum tíðina verður aldrei fullmetið.“

Unnur Kristjánsdóttir – Sundfélagið Óðinn

„Unnur Kristjánsdóttir er fædd á þann 1. september 1967. Unnur kom inn í starf Sundfélagsins Óðins fyrir um 20 árum þegar börnin hennar fóru að æfa sund með félaginu. Frá upphafi fór Unnur í fjölbreytt störf í þágu félagsins sem leiddi af sér að Unnur sótti námskeið í bæði dómgæslu og sundþjálfun. Unnur þjálfaði hjá Óðni um árabil auk þess að sinna dómgæslu á fjölmörgum sundmótum víðsvegar um landið. Unnur hefur einnig tekið að sér að sjá um tölvu- og tæknivinnslu í kringum sundmót á vegum Óðins. Sundsamband Íslands (SSÍ) hefur notið ómældra krafta og reynslu Unnar í margvíslegum verkefnum á sundmótum á vegum SSÍ. Þessum verkefnum hefur Unnur sinnt þó svo að mörg ár séu liðin frá því að hennar eigin börn hættu sinni sundiðkun þá er hún enn tilbúin til þess leggja sundíþróttinni hjálparhönd. Árið 2015 var Unnur sæmd silfurmerki SSÍ fyrir óbilandi áhuga og skuldbindingu við sundíþróttina.“

Þórir Tryggvason – Íþróttaljósmyndarinn

„Þórir Tryggvason fæddist á Akureyri þann 29. apríl árið 1956. Þórir æfði fótbolta og handbolta á barnsárum með Þór. Á unglingsárunum var hann í hestamennsku í Hestamannafélaginu Létti. Bílaáhuginn kviknaði og Þórir gerðist félagsmaður í Bílaklúbbi Akureyrar og starfaði með honum fyrstu ár klúbbsins.

Í gegnum foreldrastarfið kom Þórir meðal annars að stofnun fyrsta unglingaráðs handknattleiksdeildar KA og var í því um árabil.

Ljósmyndaáhugi Þóris af íþróttastarfinu kviknaði fljótt og birtist fyrsta íþróttamynd hans í Vikudegi vorið 1998, mynd sem var tekin á Evrópuleik KA á Akureyri.

Þórir hefur verið að mynda allskonar íþróttaviðburði í 26 ár sem hafa farið fram á Akureyri. Á þessum tíma hefur Þórir tekið rúmlega 1,5 milljónir mynda og þannig hafa íþróttamyndir Þóris fangað stóran hluta af litlum og stórum viðburðum íþróttasögunnar á Akureyri síðastliðin 26 ár. Þórir hlaut gullmerki ÍBA árið 2023 fyrir óeigingjarna og ómetanlegt starf í þágu íþrótta og í kringum íþróttaviðburði á svæðinu.“

Þórunn Sigurðardóttir – Íþróttafélagið Þór

„Þórunn „Tóta“ Sigurðardóttir er fædd þann 26. júní 1963. Tóta lék handbolta og fótbolta með Þór frá unga aldri auk þess að stunda frjálsar íþróttir á yngri árum. Afrekin innan vallar voru mörg og t.d. spilaði Tóta fótbolta með Örebro í Svíþjóð og á handboltavellinum urðu Tóta og dóttir hennar, Inga Dís fyrstu mæðgurnar á Íslandi til að spila saman í efstu deild. Tóta þjálfaði yngri flokka í handbolta og fótbolta ásamt því að þjálfa meistaraflokk kvenna í fótbolta um tíma. Eftir að keppnis- og þjálfaraferlinum lauk hefur Tóta verið eins og grár köttur í kringum Íþróttafélagið Þór og ekkert verkefni fyrir félagið verið of stórt fyrir hana. Tóta tilheyrir þeim hópi Þórsara sem vinnur sín verkefni í hljóði og gerir það með stæl.

Tóta er hjálpsöm í víðustu merkingu þess orðs með hjarta úr gulli en í raun er hún mesti Þórsari sem til er og stuðningsmaður númer 1 og er handhafi gullmerkis Þórs fyrir sín störf. Þórunn Sigurðardóttir er þannig manneskja að óhætt er að fullyrða að öll íþróttafélög þyrftu að eiga sína Tótu.“