Fara í efni
Íþróttir

Selfyssingar höfðu betur gegn Þórsurum

Aron Hólm Kristjánsson, hinn bráðefnilegi leikmaður Þórs, gerði fjögur mörk í leiknum í dag. Hér er …
Aron Hólm Kristjánsson, hinn bráðefnilegi leikmaður Þórs, gerði fjögur mörk í leiknum í dag. Hér er eitt þeirra í fæðingu. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Þórsarar töpuðu fyrir Selfyssingum í dag, 27:21, í Olísdeild Íslandsmóts karla í handbolta á heimavelli. Þeir komu afar vel stemmdir til leiks, byrjuðu af krafti og komust í 4:1 en gestirnir voru ekki lengi að jafna. Liðin skiptust á að hafa forystu í fyrri hálfleik, sem einkenndist af miklum hraða.

Gestirnir höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 13:11 en eftir nokkrar mínútu í seinni hálfleik var staðan orðin 18:12. Þórsarar náðu svo að minnka muninn, þegar hálfleikurinn var hálfnaður var staðan 18:16 en á lokakaflanum sigldu gestirnir fram úr á ný og sigur þeirra var býsna öruggur.

Mörk Þórs í dag: Ihor Kopyshynskyi 6 (3 víti), Þórður Tandri Ágústsson 5, Aron Hólm Kristjánsson 4, Karolis Stropus 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1 og Gísli Jörgen Gíslason 1. Jovan Kukobat varði 8 skot og Arnór Þór Fylkisson 6.

Þór er næst neðstur í deildinni með 8 stig eftir 19 leiki, fjórum stigum á eftir Gróttu, þegar þrjár umferðir eru eftir. Tvö lið falla og löngu ljóst að ÍR-ingar fara niður, enda neðstir án stiga.

Þannig vill til að Þór og Grótta eiga eftir að mætast og verður sá leikur á Seltjarnarnesi næsta laugardag. Þá á Þór eftir að leika við Stjörnuna í Garðabæ og loks eigast KA og Þór við í síðustu umferð deildarkeppninnar í KA-heimilinu. Þórsarar verða að vinna Gróttu og annan hinna tveggja leikjanna til að halda sæti í deildinni, að því gefnu að Grótta fái ekki stig í síðustu tveimur leikjunum, gegn Fram á útivelli og gegn Selfyssingum á Seltjarnarnesi.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.