Sandra skoraði tvö í fyrsta sigri Kölnar

Sandra María Jessen, landsliðsframherji í knattspyrnu, var besti maður vallarins og gerði bæði mörk 1. FC Köln þegar liðið sigraði SGS Essen 2:1 á útivelli í dag í 4. umferð þýsku 1. deildarinnar. Þetta voru fyrstu mörk Söndru Maríu eftir að hún gekk til liðs við Kölnarliðið í síðasta mánuði.
Kölnarliðið hafði tapað í þremur fyrstu umferðum deildarkeppninnar, heima fyrir Leipzig og Wolfsburg og á útivelli fyrir Freiburg. Essen hafði tapað tveimur og gert eitt jafntefli. Sigur Söndru og félaga í dag var því afar kærkominn; úrslitin voru sanngjörn og 1. FC Köln er nú komið með þrjú stig að loknum fjórum leikjum. Kölnarliðið er í 10. sæti af 14 og SGS Essen er neðst með eitt stig.
Sandra María gerði fyrsta mark leiksins strax á 11. mínútu og kom Köln í 2:0 aðeins þremur mínútum síðar. Í bæði skiptin komst hún inn fyrir vörnina og skoraði af miklu harðfylgi. Lið Essen minnkaði muninn eftir hálftíma leik en gestirnir frá Köln voru nær því að bæta við marki en heimamenn að jafna. Sandra fékk til að mynda mjög gott færi á lokamínútunum; skallaði þá framhjá eftir frábæra fyrirgjöf.
Bayern München og VfL Wolfsburg eru efst og jöfn í deildinni með 10 stig eftir fjórar umferðir.
Sandra María Jessen og Nicole Bender-Rummler, íþróttastjóri kvennaliðs 1. FC Köln, eftir að Sandra gekk til liðs við þýska félagið í síðasta mánuði. Mynd af vef 1. FC Köln.