Fara í efni
Íþróttir

Sandra og Baldvin íþróttafólk Akureyrar

Baldvin Þór Magnússon og Sandra María Jessen - íþróttafólk Akureyrar 2023. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen knattspyrnukona úr Þór/KA var kjörin íþróttakona Akureyrar 2023 og Baldvin Þór Magnússon hlaupari úr UFA íþróttakarl Akureyrar 2023. Kjörinu var lýst síðdegis í hófi sem Akureyrarbær og Íþróttabandalag Akureyrar héldu í menningarhúsinu Hofi.

Helga Kristín Gunnarsdóttir blakari og Hallgrímur Mar Steingrímsson, bæði úr KA, urðu í öðri sæti í kjörinu og í þriðja sæti þau Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona úr HFA og Alex Cambray Orrason kraftlyftingmaður úr KA.

Sandra María tók við viðurkenningunni en amma og afi Baldvins Þórs, Guðrún Freysteinsdóttir og Húnn Snædal, mættu fyrir hans hönd.

Í tilkynningu frá ÍBA segir um íþróttafólk ársins:

Baldvin Þór Magnússon er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta sinn.

  • Baldvin Þór er fæddur á Akureyri og bjó hér fyrstu árin en flutti þá til Bretlands með foreldrum sínum. Hann fór á íþróttastyrk til Bandaríkjanna í háskólanám og æfði þar og keppti í fimm ár. Hann hefur nú snúið aftur til Bretlands og æfir þar með sterkum hópi hlaupara.
  • Baldvin er einn allra sterkasti millivegalengda- og langhlaupari sem Ísland hefur átt. Hann hefur náð framúrskarandi árangri á undanförnum árum í hlaupum frá 1500 m og upp í 10 km hlaup. Hann á sem stendur þrettán virk Íslandsmet, sex í yngri aldursflokkum og sjö í flokki fullorðinna.
  • Baldvin keppti á árinu fyrir Íslands hönd á Evrópubikar í Póllandi í 800 og 1500 m hlaupum og í víðvangshlaupum á Norðurlandameistaramóti í nóvember og Evrópumeistaramóti í desember og náði þar besta árangri sem Íslendingur hefur náð á stórmóti í víðavangshlaupum.
  • Baldvin setti fimm Íslandsmet á árinu. 10 km götuhlaup 28:51 3000 m hlaup utanhúss 7:49,68 1500 m hlaup utanhúss 3:40,36 Míla innanhúss 3:59,60 5000 m hlaup innanhúss 13:58,24 Varð Íslandsmeistari í 5000 m hlaupi utanhúss. Varð í 16 sæti af 82 keppendum á Evrópumeistaramótinu í Víðavangshlaupum í desember sem er langbesti árangur sem íslendingur hefur náð á því móti. Baldvin stefnir á að ná ólympíulágmarki fyrir 5000 m hlaup á næsta ári.

Sandra María Jessen er íþróttakona Akureyrar í fyrsta sinn.

  • Sandra María er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu.
  • Sandra María var valin besti leikmaður Þórs/KA að loknu keppnistímabili 2023. Hún tók við fyrirliðahlutverkinu fyrir tímabilið 2023 og var lykilmanneskja í liði Þórs/KA sem endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í haust.
  • Sandra María vann sér fast sæti í landsliðinu aftur eftir að hafa verið í barnsburðarleyfi og hefur verið í byrjunarliði Íslands í næstum öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni í ár þrátt fyrir að hafa orðið fyrir meiðslum um mitt sumar og misst af æfingaleikjum liðsins í júlí.
  • Sandra María var markahæst leikmanna Þórs/KA í Bestu deildinni annað árið í röð með 8 mörk í 19 leikjum. Hún skoraði auk þess 12 mörk í sjö leikjum í A-deild Lengjubikarsins og tíu mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, æfingamóti í janúar.
  • Sandra María lék á árinu sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA (KSÍ leikir og Evrópukeppni) og nokkuð er síðan hún jafnaði og bætti félagsmet hjá Þór/KA í skoruðum mörkum í efstu deild og bætir það met með hverju marki sem hún skorar. Að meðtöldum leikjum í efstu deildum Tékklands og Þýskalands náði Sandra María þeim áfanga í haust að spila sinn 200. leik í efstu deild, 153 á Íslandi og 48 erlendis.

Íþróttafólkið sem mætt var í kvöld eða fulltrúar þeirra. Frá vinstri: Jakob Ernfelt Jóhannesson, Stefanía Daney Guðmundsdóttir, Gauti Einarsson (faðir Dags Gautasonar), Guðrún Freysteinsdóttir (amma Baldvins Þórs, íþróttakarls ársins), Húnn Snædal (afi Baldvins Þórs), Sandra María Jessen íþróttakona ársins, Alex Camray Orrason, Hafdís Sigurðardóttir, Hallgrímur Mar Steingrímsson, Maddie Anne Sutton og Helena Kristín Gunnarsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson