Fara í efni
Íþróttir

Sandra María Jessen með þrennu í Þýskalandi

Sandra María Jessen hefur skorað sjö mörk í 12 deildarleikjum með 1. FC Köln í Þýskalandi. Hér fagnar hún öðru marka sinna í leiknum í kvöld ásamt liðsfélaga sínum. Myndirnar eru skjáskot af Instagram-síðu Kölnarliðsins.

Sandra María Jessen skoraði þrennu í öruggum útisigri 1. FC Köln á liði Hamburger Sportverein (HSV) í Bundesligunni, þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í kvöld. Hún hefur þar með skorað átta mörk í 12 deildarleikjum frá því að hún gekk til liðs við þýska félagið frá Þór/KA í lok ágúst. Sandra var besti maður vallarins samkvæmt einkunnagjöf, fékk 10 í einkunn! Mögulega varð hún í kvöld fyrsta íslenska konan til að skora þrennu í þýsku úrvalsdeildinni!

Þrenna, maður leiksins og 10 í einkunn sofascore.com.

Sandra náði forystunni fyrir Köln með marki á 10. mínútu og bætti við öðru marki á 36. mínútu og Kölnarliðið með 2-0 forystu í leikhléi. HSV minnkaði muninn strax á 2. mínútu seinni hálfleiks, en liðsfélagi Söndru Maríu, hin pólska Adriana Achchinska jók muninn aftur í tvö mörk á 73. mínútu. Sandra kláraði svo þrennuna á 2. mínútu viðbótartíma og kom Kölnarliðinu í 4-1, sem urðu lokatölur leiksins.

Þrenna í sigri 1. FC Köln á HSV í kvöld og því er að sjálfsögðu fagnað vel og innilega af Söndru og liðsfélögunum. Myndirnar eru fengnar af Instagram-aðgangi þýska félagsins.

Sandra María hefur spilað 12 leiki með Kölnarliðinu í deildinni, ávallt verið í byrjunarliðinu og mörkin nú orðin átta eins og áður sagði. Þá skoraði hún tvö mörk í bikarleik með liðinu í september og eitt mark í leik gegn sínu gamla félagi, Bayer 04 Leverkusen, sem fékk svo ekki að standa þar sem leikurinn var flautaður af eftir að flóðljósin á vellinum biluðu og leikurinn síðan endurtekinn frá byrjun. Þetta mark sem ekki er talið skoraði hún eftir 26 sekúndna leik.

Köln er í 8. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 12 umferðir, en 14 lið spila í Bundesligunni. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta skipti sem Sandra María skorar þrennu utan Íslands.