Fara í efni
Íþróttir

Covid setur strik í reikninginn ytra

Sveinbjörn Pétursson og Sandra María Jessen.

Sandra María Jessen og Sveinbjörn Pétursson voru hvorugt í eldlínunni í Þýskalandi um helgina, af sömu ástæðu: Covid setti strik í reikning beggja.

Sveinbjörn stendur í marki 2. deildarliðs Aue í handbolta en Sandra leikur með Leverkusen í 1. deildinni í fótbolta. Einn leikmanna hvors liðs greindist með veiruna svo allir voru settir í sóttkví og leikjum helgarinnar frestað. Sveinbjörn sagðist, í samtali við Akureyri.net, sjálfur hafa fengið veiruna fyrir rúmum mánuði en náð sér mjög vel og væri eldhress. „Það er vonast til þess að við verðum lausir úr sóttkví eftir rúmlega viku,“ sagði Sveinbjörn.

Missir af landsleikjum

„Staðan er þannig að einn leikmaður liðsins greindist jákvæður á þriðjudaginn og þess vegna var tekin sú ákvörðun að við færum allar í 12 daga sóttkví. Leikmenn, þjálfarar, sjúkraþjálfarar og aðrir starfsmenn liðsins,“ sagði Sandra María í gær. Leik Leverkusen og Bayern München var því frestað.

Sandra hefur farið í þrjú Covid próf síðan hópurinn fór í sóttkví og alltaf staðist prófið - reynst neikvæð. „Við megum ekki versla sjálfar og ekkert fara út til að æfa, eins og staðan er núna eru bara heimaæfingar og því spennandi að sjá hvernig þetta fer í okkur. Þegar við vorum í tveggja mánaða útgöngubanni í sumar máttum við fara út að hlaupa á hverjum degi þannig að þetta er aðeins strangara núna, enda um smit innan liðsins að ræða. Maður verður bara að bíða þolinmóður og sjá hvert þetta leiðir okkur, enda er þetta staða sem þarf að taka alvarlega og ekkert annað í boði en að gera það besta úr þessu sem hægt er.“

Staðan gerir það að verkum að Sandra verður ekki í landsliðshópnum þegar Ísland mætir Slóvakíu á fimmtudaginn og Ungverjalandi í næstu viku, í undankeppni EM. „Ég verð því miður að hvetja stelpurnar að heiman í þetta skipti og fylgjast með leikjunum í sjónvarpinu. En ég hef fulla trú á að þær klári þetta verkefni.“