Fara í efni
Íþróttir

SA Víkingar mæta Fjölni í kvöld og á morgun

Orri Blöndal og félagar taka á móti Fjölni í kvöld og á morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Orri Blöndal og félagar taka á móti Fjölni í kvöld og á morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Víkingar, lið Skautafélags Akureyrar, taka á móti Fjölni í kvöld og á morgun á Íslandsmótinu í íshokkí, Hertz-deildinni, í Skautahöllinni. Akureyrarliðið hefur leikið mjög vel það sem af er vetri og er efst í deildinni, hefur unnið alla fimm leikina.

Áhorfendur eru loks velkomnir á ný, eftir að ný reglugerð um samkomutakmarkanir tók gildi í vikunni. Hleypa má 100 áhorfendum í húsið, fæddum fyrir 2005.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.30. Húsið verður opnað hálftíma fyrr og forsvarsmenn SA biðja fólk um að sýna þolinmæði í afgreiðslunni vegna þess að skrá þarf alla áhorfendur sem mæta áður en þeim er hleypt í stúkuna. Einnig er minnt á grímuskyldu. Miðaverð er 1000 kr. fyrir 16 ára og eldri og um leið og hundraðasti áhorfandinn fær miða í hendur verður miðasölu hætt.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 17.45.