Fara í efni
Íþróttir

SA-konur hefja leik á Íslandsmótinu í dag

Öflugur hópur SA-kvenna sem vann Íslandsmeistaratitilinn í vor, en miklar breytingar hafa orðið fyrir tímabilið sem hefst á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí hefur leik á Íslandsmótinu, Hertz-deildinni, í dag þegar stelpurnar okkar fá lið Skautafélags Reykjavíkur í heimsókn norður. Leikurinn hefst kl. 16:45. Silvía Rán Björgvinsdóttir mætir aftur til leiks á Akureyri eftir atvinnumennsku í Svíþjóð.

SA mætir með nokkuð breytt til leiks á komandi tímabili. Fjórar af þeim sem urðu Íslandsmeistarar með liðinu í vor hafa farið utan og munu spila í Danmörku og Svíþjóð, ein fór til SR og tvær farnar í Fjölni. 

Búast má við mun jafnari og meira spennandi, þar með vonandi skemmtilegri, keppni í Hertz-deild kvenna í vetur en oftast áður. Skautafélag Akureyrar hefur haft mikla yfirburði í kvennahokkíinu og vann lið SA Íslandsmeistaratitilinn sautjánda árið í röð þegar stelpurnar sigruðu lið Fjölnis 3-0 í úrslitaeinvíginu í mars.

SA hefur misst máttarstólpa úr liðinu frá síðastliðnu tímabili, en á móti kemur að Silvía Rán Björgvinsdóttir, sem er að koma til baka eftir meiðsli, verður með SA í vetur og munar sannarlega um minna. Væntanlega myndu flest lið finna fyrir því að missa sjö leikmenn úr hópnum, en unglingastarfið hjá SA hefur verið öflugt og skilar alltaf flottum leikmönnum inn í meistaraflokkinn á hverju ári. Liðið hefur svo einnig innan sinna raða leikmenn sem hafa verið lengi að og búa yfir gríðarlega dýrmætri reynslu sem nýtist í bland við kraftinn í þeim yngri. 

Markvörður liðsins, Shawlee Gaudreault, verður áfram. Segja má að Silvía Rán sé sú eina sem er „komin“ þegar litið er yfir breytingar á liðinu, fyrir utan ungar hokkístelpur sem koma úr starfinu innan félagsins og bætast í meistaraflokkshópinn. Auk þeirra snýr Arndís Eggerz Sigurðardóttir nú til baka á ísinn eftir að hafa verið í fríi frá hokkíinu vegna barneigna.

Komnar

Silvía Rán Björgvinsdóttir frá Hammarby IF

Farnar

Berglind Rós Leifsdóttir í Fjölni
Gunnborg Petra Jóhannsdóttir í Malmö Redhawks (Svíþjóð)
Herborg Rut Geirsdóttir í Rögle (Svíþjóð)
Hilma Bóel Bergsdóttir í Fjölni
Inga Rakel Aradóttir í Odense (Danmörk)
Katrín Rós Björnsdóttir í Örebro (Svíþjóð)
Saga Margrét Sigurðardóttir Blöndal í SR

Munar 28 árum á elstu og yngstu

Eins og sjá má á leikmannalistanum hér að neðan er breitt aldursbil í leikmannahópnum. Jónína Guðbjartsdóttir (1981) er langelst, 28 árum eldri en sú yngsta í hópnum, Sólrún Assa Arnardóttir (2009). Meðalaldur þeirra 22ja leikmanna sem SA hefur tilkynnt er rétt rúm 21 ár, en af þessum 22 leikmönnum eru 14 fæddar 2005 og síðar. 

Mark
19 - Aníta Ósk Sævarsdóttir (2008)
41 - Shawlee Gaudreault (1996)

Vörn

  3 - Anna Sonja Ágústsdóttir (1988)
  6 - Anna Sigríður Gunnlaugsdóttir (2007)
12 - Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir (2007)
14 - Eva María Karvelsdóttir (1992)
15 - Sveindís Marý Sveinsdóttir (2007)
16 - Ragnheiður Alís Ragnarsdóttir (2008)
43 - Ragnhildur Helga Kjartansdóttir (2000)
68 - Magdalena Sulova (2008)
83 - Védís Áslaug Valdemarsdóttir (1992)

Sókn

  7 - Lara Mist Jóhannsdóttir (2005)
  8 - Arndís Eggerz Sigurðardóttir (1989)
17 - Eyrún Anna Garðarsdóttir (2008)
19 - Amanda Ýr Bjarnadóttir (2006)
20 - María Guðrún Eiríksdóttir (2005)
21 - Jónín Guðbjartsdóttir (1981)
23 - Sólrún Assa Arnardóttir (2009)
24 - Kolbrún Björnsdóttir (2008)
26 - Friðrika Ólöf Stefánsdóttir (2006)
88 - Heiðrún Helga Rúnarsdóttir (2008)
89 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (1999)