Fara í efni
Íþróttir

Rosalega góð stemning í KA-blakfjölskyldunni

Bikarmeistarar KA eftir sannfærandi sigur í úrslitaleiknum á laugardaginn. Gígja fyrirliði er lengst til vinstri í fremri röðinni. Mynd af Facebook síðu KA.

Fyrstu gulldropar ársins féllu á kvennalið KA í blaki á laugardaginn; stelpurnar urðu þá bikarmeistarar annað árið í röð, eins og Akureyri.net greindi frá, nú með mjög sannfærandi 3:0 sigri á HK í úrslitaleiknum. 

KA vann fyrstu hrinuna 25:15, næstu 25:8 og þá þriðju 25:23 og tölurnar segja í raun allt sem segja þarf; yfirburðirnir voru miklir.

Gígja Guðnadóttir, fyrirliði blakliðs KA, hafði sannarlega ástæðu til að brosa breitt á laugardaginn; hún tók við sigurlaununum eftir að félagið varð bikarmeistari annað árið í röð vann því til verðlauna í fyrstu tilraun eftir að hún sneri aftur á völlinn í vetur eftir mjög slæm meiðsli í fyrra.

Gígja sleit krossband og reif liðþófa síðla síðasta keppnistímabil og var því hvorki með þegar KA varð bikar- né Íslandsmeistari. Nú er hún komin á fulla ferð á ný

Einbeiting

„Fyrir leikinn voru auðvitað taldar meiri líkur á sigri okkar því þær eru í sjötta sæti í deildinni en við efstar,“ segir Gígja um úrslitaleikinn. „Staða í deild skiptir þó ekki alltaf máli í bikarkeppninni, það hefur verið stígandi í leik HK eftir áramótin og við urðum að passa okkur á að halda einbeitingu.“

Augljóst var frá upphafi að KA-stelpurnar voru einmitt mjög einbeittar. Þær voru sigurstranglegri eins og Gígja segir – miklu sigurstranglegri, auðvitað – en í bikarkeppni má ekkert út af bregða.

„Við lögðum upp með ákveðið leikplan og fórum alveg eftir því. Við vorum mjög einbeittar, þótt við værum sigurstranglegri skipti miklu máli að slá alls ekki slöku við.  Við héldum haus allan tímann, gáfum aldrei færi á okkur í leiknum, síðasta hrinan var að vísu jafnari en hinar en mér fannst þetta í okkar höndum frá upphafi til enda.“

Úrslitaleikurinn í raun gegn Álftanesi

KA vann Þrótt frá Fjarðabyggð 3:0 í undanúrslitunum og Álftanes 3:1 í átta liða úrslitunum. „Úrslitaleikurinn var eiginlega í átta liða úrslitunum. Það var vitað mál að það yrði lang mest spennandi leikur keppninnar þegar við spiluðum við Álftanes.“

Nú tekur við barátta um deildarmeistaratitilinn. Fyrirkomulagið er annað en áður; þrjú efstu liðin mætast í rimmu um sigur í deildinni og að því loknu tekur við úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Nú er einn bikar kominn og að sjálfsögðu ætlum við að ná í hinn líka,“ segir Gígja þegar Íslandsmeistaratitilinn ber á góma. KA vann tvöfalt á síðasta ári og stefnan er vitaskuld tekin á að endurtaka þann leik. „Það er mjög spennandi tími framundan. Við setjum markið hátt,“ segir hún, en miklu skipti að halda sér á jörðinni.

Góð stemning

Athygli vakti að karlalið KA í blaki, sem tapaði í undanúrslitunum, var mætt á úrslitaleik kvennaliðsins og studdi það af miklum móð með trommuslætti og söng ásamt öðrum stuðningsmönnum.

„Það er rosalega góð stemning innan hópsins, karla- og kvennaliðið er samheldinn hópur, þjálfarinn er sá sami og liðin styðja hvort annað mjög vel,“ segir Gígja.

Ekki var síður ánægjulegt að sjá að Paula Del Olmo Gomez, einn besti leikmaður deildarinnar undanfarin ár, var mætt til leiks á ný. Hún lék ekki mikið enda stutt síðan hún eignaðist barn. „Það eru innan við tveir mánuðir, hún átti barnið 18. janúar. Paula er ekkert smá dugleg að sinna þessu og við erum mjög heppnar að fá hana aftur fyrir úrslitakeppnina. Það gefur liðinu mikið að hafa hana, bæði innan vallar og utan.  Það styrkir hópinn mikið; það er varla hægt að setja það í orð hvað skiptir miklu máli,“ segir Gígja.