Fara í efni
Íþróttir

Rætt um afreksvæðingu ungmenna í íþróttum

Rætt um afreksvæðingu ungmenna í íþróttum

Taktíkin, þáttur N4 um íþróttir og lýðheilsu á landsbyggðunum, hefur aftur göngu sína eftir stutt hlé. Skúli Geirdal hefur stýrt þáttunum frá upphafi og gerði 100 þætti frá árinu 2018. Nú tekur Rakel Hinriksdóttir við stjórninni og fyrsti þátturinn verður sýndur í kvöld, mánudaginn 19. apríl kl. 20.30. Rakel hefur verið dagskrárgerðarkona á N4 í tvö ár og er fyrrum knattspyrnukona. Nýverið stjórnaði hún þáttunum Íþróttabærinn Akureyri.

Í kvöld verður rætt um svokallaða „afreksvæðingu“. Það er þegar afreksmiðaðri íþróttaþjálfun er beitt á sífellt yngri iðkendur.

„Til þess að fá sjónarmið úr sem flestum áttum, eru viðmælendur þáttarins frá ýmsum sviðum,“ segir í tilkynningu frá N4. „Ingi Þór Ágústsson er í framkvæmdastjórn Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og reynslumikill sundþjálfari, Richard Taethinen er með doktorspróf í íþróttasálfræði, aðjúnkt við sálfræðideild Háskólans á Akureyri og einn af þeim sem skrifaði undir yfirlýsingu um að snemmtæk afreksvæðing barna væri óæskileg, Ólína Freysteinsdóttir er fjölskylduráðgjafi, Jón Stefán Jónsson er íþróttafulltrúi Þórs á Akureyri og knattspyrnuþjálfari og María Finnbogadóttir er afreks- og landsliðskona á skíðum, fór aðeins 14 ára gömul til Austurríkis til þess að helga sig skíðaíþróttinni. María miðlar af reynslu sinni sem ung íþróttakona sem setur íþróttina í fyrsta sæti frá því að hún man eftir sér.“

Þátturinn er í línulegri dagskrá í kvöld kl. 20.30, eftir það verður hann aðgengilegur á N4 safninu hjá Sjónvarpi Símans, Facebook síðunni N4Sjonvarp og á vefsíðu N4, www.n4.is. Einnig er Taktíkin til sem hlaðvarp og þátturinn kemur þar inn fljótlega eftir frumsýningu.