Fara í efni
Íþróttir

Óvænt tap SA-kvenna eftir framlengingu

Pökkurinn kominn í mark SA og SR-konur fagna innilega enda var þetta aðeins annar sigur liðsins í vetur. Skjáskot úr YouTube-streymi.

Kvenna- og karlalið Skautafélags Akureyrar tapa að jafnaði ekki mörgum leikjum á hverri leiktíð, en núna um helgina bar svo við að bæði liðin töpuðu. Kvennalið SA mátti sjá á eftir tveimur stigum suður eftir jafnan leik gegn liði SR og tap í framlengingu. Karlalið SA tapaði eftir framlengingu og vítakeppni gegn Fjölni í gær eins og þegar hefur verið útlistað á Akureyri.net.

Það var langt liðið á fyrsta leikhlutann þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Það var Sólrún Assa Arnardóttir sem kom SA í forystuna, en rétt rúmri mínútu síðar höfðu gestirnir jafnað. Bæði mörkin komu strax upp úr dómarakasti. SR náði svo forystunni með marki í upphafi annars leikhluta, en Silvía Rán Björgvinsdóttir jafnaði þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður og aðeins rúmri mínútu síðar náði Ragnhildur Kjartansdóttir forystunni fyrir SA. 

Lið SR hefur átt á brattann að sækja í vetur og var aðeins með þrjú stig fyrir viðureignina í dag, en liðið sigraði Fjölni fyrr í vikunni og náði í sín fyrstu stig. SR-konur voru heldur ekkert á því að gefast upp gegn Akureyrarstórveldinu og jöfnuðu í 3-3 í öðrum leikhluta. Hvorugu liðinu tókst að skora í þriðja leikhlutanum og því var flautað til framlengingar.

Spilað er upp á gullmark eða að hámarki fimm mínútur áður en gripið er til vítakeppni. Gestirnir höfðu sótt ákaft á lokakafla þriðja leikhluta og voru ekkert að ómaka sig við að spila heilar fimm mínútur heldur skoruðu gullmarkið þegar aðeins 14 sekúndur voru liðnar af framlengingunni. Þar var á ferðinni April Orongan, fyrrum leikmaður SA. Í framlenginu er spilað þrjár á þrjár, en þar sem leikmaður SA hafði fengið refsingu undir lok þriðja leikhluta þurftu þær að hefja framlenginguna einni færri, eða þrjár á móti fjórum útileikmönnum.

SA - SR 3-4 (3-3) (1-1, 2-2, 0-0, 0-1)

  • 1-0 Sólrún Assa Arnardóttir (14:50). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir.
  • 1-1 Satu Niinimäki (16:03). Stoðsending: Saga Blöndal Sigurðardóttir.
    - - -
  • 1-2 Friðrika Magnúsdóttir (22:03). Stoðsending: April Orongan, Saga Blöndal Sigurðardóttir.
  • 2-2 Silvía Rán Björgvinsdóttir (33:42). Stoðsending: Sólrún Assa Arnardóttir, Amanda Ýr Bjarnadóttir.
  • 3-2 Ragnhildur Kjartansdóttir (34:51). Stoðsending: Jónína Guðbjartsdóttir, Arna Gunnlaugsdóttir.
  • 3-3 Arna Friðjónsdóttir (39:29). Stoðsending: Friðrika Magnúsdóttir.
    - - -
  • 3-4 April Orongan (60:14). Stoðsending: Alexandra Hafsteinsdóttir.

SA-konur áttu mun fleiri skot á markið en gestirnir, 43 á móti 12. Þær dvöldu líka lengur í refsiboxinu, samtals tíu mínútur á móti sex mínútum gestanna. Díana Óskarsdóttir verði átta skot í marki SA, eða tæp 67%. Andrea Bachman varði 40 skot í marki SR eða 93%.

Þrátt fyrir tapið eru SA-konur langefstar í deildinni og hafa þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn eins og Akureyri.net greindi frá fyrir stuttu. Það er hins vegar ekki útkljáð hvort SA mætir Fjölni eða SR í úrslitarimmunni því nú munar tíu stigum á þessum liðum, Fjölnir með 15 stig og SR með fimm þegar enn eru 15 stig í pottinum fyrir SR og 12 stig fyrir Fjölni. 

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins. Þegar smellt er á myndina hér að neðan fer útsendingin beint á upphaf framlengingarinnar.