Fara í efni
Íþróttir

„Ótrúlega spennt“ – Þór gegn Snæfelli í dag

Madison Anne Sutton er lykilmaður í liði Þórs. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir

Kvennalið Þórs í körfubolta tekur á móti Snæfelli í dag þegar úrslitakeppni 1. deildar fer af stað. Eitt lið fer upp í efstu deild og bítast fjögur lið um það sæti.

Leikurinn hefst í Íþróttahöllinni kl. 17.00 og „þá ættu allir Akureyringar að vera uppteknir,“ segir Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórsliðsins, í viðtali á heimasíðu félagsins; uppteknir við að fylgjast með stelpunum í Hölinni!

Fyrirkomulag úrslitakeppninnar er þannig að það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit gegn sigurvegara úr leikjum Stjörnunnar og KR.

„Stuðningurinn skiptir ótrúlega miklu máli,“ segir Heiða Hlín og hvetur fólk til að fjölmenna í Höllina. „Það hefur sýnt sig og sannað að orkan sem við fáum frá stuðingsfólkinu er okkur miklu mikilvægari en við gætum nokkurn tíma útskýrt,“ segir hún. Tilhlökkunin er augljóslega mikil: „Ég er ótrúlega spennt!“

Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórsliðsins. „Ég er ótrúlega spennt!“ segir hún. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Þórsarar urðu í öðru sæti deildarinnar með 36 stig og Snæfell í þriðja sæti með 34. „Snæfell er mjög gott lið,“ segir Heiða Hlín en viðureignir liðanna í vetur voru spennandi; Þórsarar unnu tvo leiki en Hólmararnir unnu einn.

Annar leikur liðanna í úrslitakeppninni verður í Hólminum 28. mars og þriðji leikurinn í Hölinni á Akureyri næsta föstudag, 31. mars. Ef með þarf verður fjórði leikur 2. apríl í Hólminum og sá fimmti í Höllinni. 5 apríl.

Smellið hér til að sjá viðtalið við Heiðu Hlín á heimasíðu Þórs