Fara í efni
Íþróttir

Ótrúlega langur meiðslalisti KA

Dusan Brkovic byrjar í þriggja leikja en er reyndar meiddur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Listinn yfir meidda leikmenn knattspyrnuliðs KA er ótrúlega langur. Arnar Grétarsson, þjálfari liðsins, segir stöðuna skána með hverjum deginum en ástandið á leikmannahópnum sé sannarlega ekki ákjósanlegt nú þegar Íslandsmótið hefst.

Dusan Brkovic – Miðvörðurinn er meiddur en byrjar reyndar keppnistímabilið í þriggja leikja banni hvort sem er, vegna „afbrota“ innan vallar í fyrra. „Hann kom í febrúar og æfði í þrjár vikur áður en hann meiddist,“ segir Arnar Grétarsson. „Dusan var svo rétt að byrja að æfa aftur þegar þegar hann tognaði eftir 20 mínútna leik í æfingaferðinni á Spáni um daginn. Síðan er rúmur mánuður, hann æfir létt en tekur ekki fullan þátt í æfingum.“

Hallgrímur Mar Steingrímsson – Þessi lykilmaður í sóknarleik KA undanfarin ár hefur glímt við meiðsli í vetur og ekki getað æft mikið. „Grímsi kemur hægt og rólega inn í þetta hjá okkur. Hann kom inn á í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins á móti Þór en hafði aðeins náð einni alvöru æfingu fyrir þann leik. Ég geri ekki ráð fyrir að hann verði kominn í toppstand fyrr en eftir þrjár til fjórar vikur; ég reikna að minnsta kosti ekki með því að hann verði í byrjunarliði alveg á næstunni,“ segir Arnar Grétarsson.

Sebastian Brebels – Belgíski miðjumaðurinn, sem lék mjög vel í fyrrasumar, kom til landsins í byrjun febrúar en meiddist á fyrstu æfingu og hefur verið nánast alveg frá síðan, að sögn Arnars. „Hann spilaði reyndar mest allan leikinn á móti Fylki um daginn en var slæmur á eftir og þá kom í ljós að það var allt í rugli í fætinum á honum. Hann fór heim til Belgíu og kom aftur 10. apríl fyrir síðasta æfingaleikinn okkar, við Val. Hann hefur ekki æft á fullu en það er þó stutt í hann.“

Bry­an Van Den Boga­er – Vinstri bakvörðurinn, sem kom til KA frá Belgíu, meiddist á æfingu í Boganum seint í mars og hefur ekki náð að spila heilan leik.

Hrannar Steingrímsson – Bakvörðurinn sterki sleit krossband í hné fyrir nokkrum misserum, hefur æft undanfarið en er ekki orðinn 100% tilbúinn í slaginn.

Steinþór Freyr Þorsteinsson – Framherjinn reyndi fór meiddur af velli eftir hálftíma í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins gegn Þór og hefur ekkert æft síðan.

Okesiy Bykov – Miðvörðurinn sem kom að láni frá Úkraínu fyrir stuttu hefur verið að glíma við meiðsli upp á síðkastið.

Hallgrímur Jónasson – Varnarmaðurinn gamalreyndi, sem er aðstoðarþjálfari Arnars, hefur verið meiddur lengi en þeir félagar reiknuðu með að hann spilaði í sumar. „Hann var aðeins með í Kjarnafæðismótinu og Lengjubikarnum og var farinn að líta þolanlega út. Í æfingaferðinni á Spáni fékk hann svo eitthvað í hnéð og hefur nánast ekkert æft síðan, í einar fimm vikur.“ Hallgrímur hefur hitað upp fyrir tvær æfingar í vikunni en ekki verið meira með og því ljóst að hann leikur ekki á næstunni.

Þorvaldur Davíð Jónsson – „Ungur og efnilegur strákur sem hefði fengið einhverjar mínútur hjá okkur en hann hefur eiginlega verið meiddur frá því síðasta sumar,“ segir Arnar.

Kári Gautason – „Kári er líka mjög flottur, ungur og efnilegur, og hefur spilað dálítið í vetur. Nú eru einhver meiðsli að plaga hann en það er vonandi ekki mikið.“

Haukur Heiðar Hauksson – Varnarmaðurinn þrautreyndi ákvað að leggja skóna á hilluna á dögunum vegna þrálátra meiðsla. „Hann ætlaði að vera með í sumar en meiddist enn einu sinni í æfingaferðinni um daginn, fékk högg á hnéð sem fylltist af vökva og þá ákvað Haukur að hugsa málið upp á nýtt. Við mun að sjálfsögðu sakna hans mikið en það verður að hugsa um heilsu fólks,“ segir Arnar.

  • „Maður er ekkert að væla eða draga fram einhverjar afsaknir – en öll þessi meiðsli eru einfaldlega staðreynd,“ segir Arnar Grétarsson. Undirbúningurinn hefur alls ekki verið eins og best verður á kosið, segir hann, og má til sanns vegar færa. „Ég hef ekki verið með nema 12 til 14 leikmenn að meðaltali á æfingum síðan í nóvember, þar með taldir ungir strákar. Hópurinn hefur aðeins verið að þéttast síðustu 10 daga en nokkrir hafa samt ekki getað tekið þátt á æfingum á fullu og eru því stórt spurningamerki.“

Auk þeirra sem eru meiddir nefnir þjálfarinn framherjann efnilega, Svein Margeir Hauksson. „Það er hrikalega flottur strákur en hann er fyrir sunnan í námi og síðasta prófið hans er ekki fyrr en 10. maí. Hann hefur lítið æft með okkur í vetur en hefur komið í leiki.“

KA varð í 4. sæti efstu deildar Íslandsmótsins í fyrra og var aðeins hársbreidd frá því að ná Evrópusæti.

Nýir leikmenn frá því í fyrra:
Oleks­iy By­kov frá Mariopol í Úkraínu (KA fékk hann lánaðan)
Bry­an Van Den Boga­ert frá Mo­len­beek í Belg­íu
Áki Sölva­son frá KF (úr láni)
Ýmir Már Geirs­son frá Magna (úr láni)

Farn­ir:
Mikk­el Qvist í Breiðablik
Mark Gundelach í Fremad Ama­ger, Danmörku
Hauk­ur Heiðar Hauks­son, hætt­ur