Fara í efni
Íþróttir

Ótrúleg dramatík í lokin og KA tapaði

KA-menn voru svekktir, sem von var, eftir að Hallgrímur Mar þrumaði yfir úr vítaspyrnu á síðustu sekúndu leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Dramatíkin var yfir hættumörkum á lokasekúndum leiks KA og Víkings á Dalvík í kvöld, toppslags Pepsi Max deildarinnar í knattspyrnu. Nikolaj Hansen hafði  skorað fyrir gestina eftir klukkutíma leik en á lokaandartökunum fengu KA-menn vítaspyrnu og gátu jafnað. Hallgrímur Mar Steingrímsson, markahæsti maður deildarinnar, tók vítið eins og venjulega en brást bogalistin; skaut yfir markið. Það reyndist næst síðasta spyrna leiksins því um leið og Þórður Ingason, markvörður Víkings, tók markspyrnuna flautaði dómarinn, Elías Ingi Árnason, til leiksloka.

Vítið var dæmt eftir að Andri Fannar Stefánsson féll í teignum, þegar þeir Nikolaj Hansen reyndu báðir að ná til boltans. Víkingar trúðu vart eigin augum, ef marka mátti viðbrögðin, en ekki þýddi að deila við dómarann frekar en fyrri daginn. 

Sigur Víkinga var sanngjarn. Þeir héldu boltanum betur og voru samstilltari. Sérstaklega voru KA-menn sjálfum sér ólíkir í fyrri hálfleiknum og fram í miðjan þann seinni, þá sóttu þeir í sig veðrið og Víkingar lögðu meiri áherslu en áður á að halda fengnum hlut. KA-menn náðu hins vegar ekki að ógna marki gestanna að neinu ráði fyrr en í lokin. En besta færið nýttist ekki, sem fyrr segir.

Víkingur eru þar með komnir með 13 stig eftir fimm leiki en KA hefur 10 stig.

 Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna

Nikolaj Hansen skorar eina mark leiksins, dauðafrír í markteignum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Andri Fannar Stefánsson reynir að ná til boltans á lokasekúndunum, um leið og markaskorarinn Nikolaj Hansen ...

... Andri Fannar fellur og Elías Ingi er vissi í sinni sök. Víti skal það vera.

Kári Árnason, fyrirliði Víkings, og samherjar hans voru ekki innilega sammála dómaranum ...

Þórður markvörður Ingason horfir á eftir boltanum yfir þverslána og fram í Svarfaðardal.

Hallgrímur Mar var vitaskuld afskaplega vonsvikinn, en samherjarnir voru fljótir að hughreysta hann.