Fara í efni
Íþróttir

Opið Akureyrarmót í pílukasti 60+

Fyrsta opna Akureyrarmótið í pílukasti fyrir 60 ára og eldri fer fram í dag. Mótið er á vegum verkefnisins Virk efri ár sem Akureyrarbær heldur úti, en það felur í sér margskonar íþróttir og gönguferðir alla virka daga; einn fastur liður er einmitt pílukast kl. 14.00 á mánudögum.

Pílukastsmótið fer fram í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu, í aðstöðu píludeildar Þórs, og er þátttaka ókeypis. „Hefðbundinn tími byrjar kl. 14.00, en klukkan 14.30 verður svo byrjað að keppa,“ segir á Facebook síðu Virkra efri ára – og þar er einnig spurt: Væri ekki annars bara tilvalið að hefja smá upphitun kl. 11.00 með bogfimi niður í Kaldbaksgötu 4?

Á Facebook síðu verkefnisins kemur fram í hverju það felst:

  • Hægt er að mæta í alla þá valkosti sem fólk hefur áhuga á, hvort sem það er tilfallandi eða reglubundið. Þátttakendur eru hvattir til að prófa sem flest með því að leitast við að finna að lágmarki þrennt sem höfðar til þeirra.
  • Hægt er að skrá sig í einn mánuð í senn, án frekari skuldbindinga.
  • Blak, styrktaræfingar, borðtennis, dans, boccia, pokavarp (e. Cornhole), jóga, leikir, badminton, frisbígolf (folf) innandyra, pílukast, gönguferðir, sundleikfimi.