Fara í efni
Íþróttir

Stjórnlaus hegðun á samfélagsmiðlum

Óli Stefán Flóventsson á meðan hann var þjálfari KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Óli Stefán Flóventsson, fyrrverandi þjálfari KA í knattspyrnu, hefur ritað pistla á Facebook síðu sína undanfarið þar sem hann veltir fyrir sér umfjöllun fjölmiðla um knattspyrnu, ræðir um samfélagsmiðla og einelti.

„Ég ætla að byrja á því að vekja athygli á því að í verstu tilfellum getur einelti leitt til sjálfsvígs,“ segir hann í upphafi síðasta pistilsins, sem hann birti í gær.

Rétt er að taka fram að Óli Stefán gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til þess að birta skrif hans.

Í pistli fyrir nokkrum vikum spurði Óli Stefán:

Eru þjálfarar lagðir í einelti?

Hann sagðist hafa velt spurningunni fyrir sér á þeim fimm árum sem hann hefur þjálfað í efstu deildum á Íslandi. Óli hefur greint frá því að hann var lagður í einelti í skóla á yngri árum, og þekki málið því vel.

Í pistli gærdagsins segir Óli: „Rannsóknir í Bretlandi sýna að sjálfsvígstíðni hefur aukist mikið meðal ungra kvenna frá árinu 2012 og má því velta því fyrir sér að aukin notkun samfélagsmiðla og eineltishegðun þaðan hafi áhrif á þá aukningu.

Sjálfsvíg er algengasta dánarorsok karlmanna 45 ára og yngri þar í landi.“

Óli nefnir svo að frá því síðasti pistill birtist, þar sem hann gagnrýndi umfjöllun fjölmiðla um knattspyrnu, hafi hann fengið áhugaverð viðbrögð. „Meðvitað ákvað ég að fylgjast vel með umræðunni og því hvernig þessum pælingum mínum yrði tekið. Ekki kom það á óvart að einhverjir færu á afturlappirnar á meðan aðrir sýndu auðmýkt og skilning.“

Óli segir einelti á samfélagsmiðlum eða fjölmiðlum svo risastórt hugtak að fólk nái ekki lengur utan um hvað sé rétt og hvað rangt. Í Bretlandi sé búið að safna um milljón undirskriftum þar sem kallað sé eftir hertum viðurlögum gegn netofbeldi og einelti eftir að sjálfsvígum, sem rekja má til þess, fjölgaði.

„Dæmi um einelti á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum þar í landi er Luke Chadwick, en hann varð skotspónn fjölmiðla vegna útlits, hann þótti ekki nógu fríður. Chadwick náði sér aldrei á strik í fótboltanum eftir að hafa komist upp á efsta svið hjá Man Utd þar sem Alex Ferguson þjálfaði hann, hugsanlega vegna vanlíðunar í kjölfar eineltis.

Áratug seinna stígur hann fram með tilfinningar sínar og lýsir því hvernig honum leið og líður enn. Í kjölfarið komu einhverjir fram, sjá af sér og hafa beðist afsökunar.“

Óli víkur svo að vinsælasta fótboltahlaðvarpi hér á landi, Dr. football, sem Hjörvar Hafliðason heldur úti. Tekur fram að honum líki vel við Hjörvar. „Alltaf hefur mér líkað við hann, bæði í persónu og eins í starfi. Við höfum unnið saman í þjálfun og er hann góður markmannsþjálfari.“

Óli segir hlaðvarp Hjörvars að mörgu leyti vel upp sett, það höfði til margra og engin tilviljun sé að þátturinn sé eins vinsæll og raun ber vitni.

„Með þáttarstjórnanda eru tveir sérfræðingar. Ég þekki þá ekki persónulega en í gegnum þjálfun og feril sem leikmaður þekki ég þá af góðu einu. Það þarf ekki mikinn snilling í að skynja álit þeirra á mér og það er allt í góðu. Ég veit ekki til þess að ég hafi gert eitthvað á þeirra kostnað en það verður að liggja á milli hluta.“

Óli kallar umfjöllun um sig í þættinum eineltisumræðu. „Endurtekin neikvæð alhæfing og áframhaldandi grín er nákvæmlega ein af skilgreiningum eineltis.“

Lokaorð Óla eru eftirtektarverð:

„Einelti sem leiðir til sjálfsvígs vekur okkur alltaf til umhugsunar.

Hegðun á samfélagsmiðlum er nánast stjórnlaus og normið svo út úr kortinu að við höldum að framkoma þar hafi ekki afleiðingar.

Hegðunin þar getur haft mjög slæmar afleiðingar.

Einelti er dauðans alvara !“