Fara í efni
Íþróttir

Öldungur – risamót í blaki um helgina

Öðruvísi er um að litast í Boganum þessa dagana en alla jafna. Ljósmyndir: Haraldur Ingólfsson

Valor-mótið í blaki, Öldungur 2023, fer fram á Akureyri og Húsavík í dag og næstu daga, sannkölluð hátíð fyrir blakfólk yfir þrítugu. Öldungamót í blaki eru haldin árlega og eru á meðal stærstu og fjölsóttustu íþróttaviðburða í almenningsíþróttum hér á landi. Nú er komið að 46. öldungamótinu sem að þessu sinni er haldið í sameiningu af Völsungi og KA. Þátttakendur eru um 1.200 samkvæmt leikmannalista sem finna má á mótssíðunni undir blak.is. Keppni hefst í dag kl. 8:30, en mótið stendur fram á sunnudag og lýkur með balli í Boganum á sunnudagskvöld.

Unnið að undirbúningi öldungamótsins í Boganum í gær.

Spilað á 17 völlum

Spilað er á þremur stöðum á Akureyri og einum á Húsavík, samtals á 17 völlum. Boginn verður stærsti vettvangur mótsins, en þar verða átta keppnisvellir, auk þess sem þar fer fram lokaball mótsins á sunnudagskvöld. Þrír vellir eru í KA-heimilinu, þrír í íþróttahúsi Síðuskóla og þrír í íþróttahúsinu á Húsavík. Keppt er í sex deildum karla og tíu deildum kvenna.

Blakið verður í aðalhlutverki frá morgni og fram eftir degi, mislengi eftir íþróttahúsum eins og sjá má á dagskrá mótsins. Öll kvöldin tekur svo við skemmtun þar sem tónlist og dans verða í aðalhlutverkunum, fyrst diskótek og tónlistarbingó í KA-heimilinu í kvöld, ball í anda tíunda áratugarins í KA-heimilinu á laugardagskvöld og svo lokaball með Páli Óskari í Boganum á sunnudagskvöld. Blakmótinu sjálfur lýkur um miðjan dag á sunnudag með úrslitaleik í 1. deild og verðlaunaafhendingu.

Blak Sabbath og Bíbí og blaka

Þátttökuliðin hafa sum hver gefið hugmyndafluginu lausan tauminn þegar kemur að nafngift. Meðal þátttökuliða kvenna eru Bíbí og blaka, Drulluflottar, Stellur í orlofi, Stellur í framboði, Dalalæður, Krákurnar og Hrunakonur hressar, svo dæmi séu tekin. Karlaliðin heita til dæmis MassaDjamm, Splæsir Ekki, Þór-arinn, FRAM-á-nótt, Njólar og Blak Sabbath. Mörg liðanna kenna sig svo auðvitað við íþróttafélög þar sem blak er stundað, eins og Hamar, HK, Völsung, Þrótt Nes., KA og Álftanes.

Ekki eintóm hamingja

Kurr er á meðal knattspyrnufólks vegna mótsins þar sem knattspyrnuæfingar í Boganum falla niður í nokkra daga, fyrst vegna undirbúnings fyrir mótið, uppsetningar blakgólfs og þess háttar, síðan vegna mótsins sjálfs og svo lokaballs sem einnig verður haldið í Boganum. Útiæfingar á grasi eru ekki hafnar og því aðeins einn gervigrasvöllur í bænum þar sem hægt er að æfa næstu daga og á það bæði við um meistaraflokka og yngri flokka. Íslandsmótið er fyrir nokkru hafið bæði í 2. og 3. flokki, keppni í Bestu deild karla er komin vel af stað, Besta deild kvenna hófst núna í vikunni og rúm vika er í fyrsta leik Þórs í Lengjudeild karla.

KA á útileik í Bestu deild karla á laugardag, Þórsarar áforma að spila æfingaleik við Völsung á KA-vellinum á laugardag og Þór/KA spilar sinn fyrsta heimaleik í Bestu deildinni á KA-vellinum á mánudag. Sá leikur var í uppröðun mótsins settur á heimavöll liðsins, Þórsvöllinn, en hefði mögulega getað verið spilaður í Boganum ef hann hefði verið laus.