Fara í efni
Íþróttir

Oddur með níu mörk í sigri á liði Guðmundar

Oddur með níu mörk í sigri á liði Guðmundar

Oddur Gretarsson var frábær þegar Balingen-Weilstetten sigraði MT Melsungen, 25:24, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handbolta í gærkvöldi. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, stýrir liði Melsungen.

Oddur lék í 35 mínútur af 60 en skoraði engu að síður níu mörk, þar af aðeins eitt úr víti. Þótt ótrúlega hljómi var staðan í hálfleik 16:12 heimamönnum í vil, þannig að Oddur og félagar fengu einungis átta mörk á sig í seinni hálfleik.

„Við gerðum mörg heimskuleg mistök í fyrri hálfleik en vorum annars að spila vel í raun. Við löguðum þessa hluti seinni hluti í seinni hálfleik, spiluðum mjög góða vörn og markvarslan var góð,“ sagði Oddur við Akureyri.net.

Oddur byrjaði á bekknum og kom fyrst inn á þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. „Hinn hornamaðurinn hefur byrjað undanfarið og hefur spilað mjög vel; gerði til dæmis 11 mörk í síðasta leik.“

Balingen er í 16. sæti af 20 með 13 stig og í fallhættu þannig að sigurinn var sannarlega kærkominn. Lærisveinar Guðmundar í Melsungen eru í 11. sæti með 21 stig.