Fara í efni
Íþróttir

Nökkvi Þeyr og Jóna Margrét íþróttafólk KA

Knattspyrnumaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson var kjörinn íþróttakarl ársins hjá KA og blakarinn Jóna Margrét Arnarsdóttir íþróttakona KA. Þetta var tilkynnt í fjölmennu hófi félagsins í menningarhúsinu Hofi í gær þar sem árið 2022 var gert upp og 95 ára afmæli félagsins fagnað, en afmælið er í dag.

„Jóna Margrét Arnarsdóttir er þrátt fyrir ungan aldur aðal uppspilari meistaraflokks kvenna hjá KA og á síðasta tímabili varð hún deildar-, bikar og Íslandsmeistari með liðinu,“ sagði um Jónu þegar kjör hennar var tilkynnt. „Jóna tók við fyrirliða hlutverki liðsins seinnihluta tímabilsins og í lok tímabilsins var Jóna valin besti uppspilari úrvalsdeildar BLÍ ásamt því að vera með næst flest stig úr uppgjöf.“

Leikur lykilhlutverk

Í sumar var Jóna valin í A landsliðið þegar það tók þátt í undankeppni Evrópumóts, auk þess var hún valin í U21 árs landsliðið þegar það tók þátt í Evrópukeppni smáþjóða og undankeppni smáþjóða í maí. „Í Evrópukeppni smáþjóða lenti liðið í 2. sæti. Einnig var hún valin í U19 ára landsliðið þegar það tók þátt á Norðurevrópumóti nú í haust og spilaði hún þar sem aðal uppspilari liðsins. Í lok móts var hún valin mikilvægasti leikmaður íslenska liðsins.“

Rifjað var upp að á milli landsliðsverkefna fór Jóna til Spánar þar sem hún æfði með FC Cartagena og var þar á reynslu í mánuð. „Það sem af er þessu tímabili er meistarflokkur kvenna hjá KA í efsta sæti úrvalsdeildarinnar ásamt því að hafa orðið Meistari meistaranna í upphafi tímabilsins. Jóna er nú sem stendur með flest stig úr uppgjöf og hefur þurft að bregða sér í hluverk sóknarmanns með mjög góðum árangri. Það má því með sanni segja að Jóna sé fjölhæfur leikmaður sem hefur spilað lykilhlutverk í velgengi meistarflokks KA undanfarið. Jóna er metnaðarsöm og drífandi leikmaður ásamt því að vera yfirveguð þegar þörf er á, sem er nauðsynlegur eiginleiki uppspilara. Jóna er einnig til fyrirmyndar innan sem utan vallar.“

  • Tilnefndar í kjöri íþróttakonu KA voru, auk Jónu Margrétar:  Edda Ósk Tómasdóttir frá júdódeild, Margrét Árnadóttir knattspyrnukona, handboltakonurnar Rakel Sara Elvarsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, og blakarinn Valdís Kapitola Þorvarðardóttir.

Frábært ár

„Nökkvi Þeyr Þórisson sló heldur betur í gegn á árinu 2022 en hann blómstraði í KA-liðinu í sumar, skoraði hvorki meira né minna en 17 mörk í 20 leikjum í deildinni og hélt sama hætti í bikarævintýri liðsins einnig. Hann endaði sem markahæsti leikmaður ársins þrátt fyrir að missa af síðustu 7 leikjum tímabilsins eftir að draumur hans um atvinnumensku rættist er hann gékk til liðs við KV Beerschot í Belgíu í byrjun september,“ sagði um Nökkva Þey þegar kjöri hans sem íþróttakarls KA 2022 var lýst.

„Nökkvi lagði gríðarlega mikla aukavinnu á sig á keppnistímabilinu sem skilað sér vel inni á vellinum og í lok tímabilsins var hann valinn í lið ársins hjá öllum fjölmiðlum sem deildinni sjálfri. Nökkvi var markahæsti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn og að endingu var hann líka valinn besti leikmaður deildarinnar bæði af sérfræðingum sem og leikmönnum og þjálfurum deildarinnar. Nökkvi hefur síðan haldið áfram að blómstra á haustmánuðum í Belgiu þar sem hann spilar alla leiki og hefur haldið áfram að standa sig frábærlega. Sannarlega frábært ár hjá þessum öfluga leikmanni.“

  • Tilnefndir í kjöri íþróttakarls KA voru, auk Nökkva Þeys: Alex Cambray Orrason frá lyftingadeild, Gylfi Rúnar Edduson frá júdódeild, Ívar Örn Árnason frá knattspyrnudeild, Miguel Mateo Castrillo frá blakdeild og Óðinn Þór Ríkharðsson frá handknattleiksdeild.